Guðmundur Gísli Geirdal, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur fengið lausn frá störfum sem bæjarfulltrúi í Kópavogsbæ.

Bæjarstjórn samþykkti beiðni hans um lausn frá störfum á bæjarstjórnarfundi í fyrradag en þar greiddu ellefu bæjarfulltrúar atkvæði að setja málið á dagskrá með afbrigðum.

„Bæjarstjórn samþykkir með 11 atkvæðum beiðni Guðmundar Gísla Geirdal um lausn frá störfum bæjarstjórnar, og annarra trúnaðarstarfa fyrir bæjarstjórn Kópavogs, til loka kjörtímabilsins,“ kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá 8. mars.

Guðmundur greindi sjálfur frá því á mánudaginn síðastliðinn að hann hefði dregið sig út úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna persónulegra ástæðna. Vísir greindi frá því fyrr í vikunni að annar bæjarfulltrúi hefði kvartað undan hegðun Guðmundar á samkomu í nóvember í fyrra.

Málið var tekið fyrir innan Sjálfstæðisflokksins og var ráðgjafarstofan Attentus fengin til að skrifa skýrslu um málið. Niðurstaðan var sú að Guðmundur hefði gerst sekur um kynferðislega áreitni og ofbeldi að því er fram kemur í frétt Vísis.