Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, hyggst ekki halda áfram í stjórnmálum eftir að flokki hans mistókst að ná manni á þing í Alþingiskosningunum í gær. Tilkynnti hann þetta í myndbandsávarpi á YouTube-rás sinni, þar sem hann gerði upp kosningarnar og þakkaði stuðningsmönnum sínum.

„Ég held að sigurvegarar þessara kosninga eru þessi 0,4 prósent sem kusu okkur, af því að þau þorðu að kjósa með hjartanu,“ sagði Guðmundur í myndbandinu. Annars var hann þar ómyrkur í máli og sagði að kosningarnar í gær hefðu verið „síðustu fríu og frjálsu kosningarnar á Íslandi.“

Guðmundur taldi ósigur Frjálslynda lýðræðisflokksins mega rekja til þess að flokkinn skorti ríkisfjármagn sem sitjandi flokkar á Alþingi hefðu haft. Benti hann á þær miklu fjárhæðir sem stjórnmálaflokkar hefðu varið í auglýsingaherferðir.

„Þetta er kannski það sem fjölmiðlarnir vilja. Þeir uppskáru ríkulega upp úr þessari kosningabaráttu. Nú má segja að stjórnmálin séu orðin ríkisvædd í fyrsta sinn á Íslandi, beint í andlitið á þér … og fjölmiðlar allir ríkisvæddir, beint í andlitið á þér. Þessu verður ekki breytt. Ef eitthvað aukast styrkir til fjölmiðla og stjórnmálaflokka. Þau ætla að halda þessu svona. Þau eru búin að finna uppskriftina.“

„Fyrir mína parta þá ætla ég ekkert að fara að skipta mér meira af stjórnmálum ,“ sagði Guðmundur Franklín. „Fólk auðsjáanlega er bara sátt við þetta og spillinguna sem því fylgir.“

Guðmundur Franklín lagði þó áherslu á að Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn myndi halda áfram störfum, enda hefði flokkurinn sjálfstætt líf og góða stefnuskrá.