Guð­mundur Gunnars­son, sem ný­verið lét skyndi­lega af störfum sem bæjar­stjóri Ísa­fjarðar­bæjar, hefur á­kveðið að flytja frá Ísa­firði. Hann segist ekki lengur vel­kominn í sam­fé­laginu og sakar bæjarstjórnina um fantabrögð og rógburð.

„Það er sannar­lega skrítin til­finning að finnast maður ekki lengur vel­kominn í sam­fé­laginu sem ól mann upp. En þannig er það nú samt. Hér líður okkur ekki lengur vel,“ skrifar Guð­mundur á Face­book-síðu sína.

Hann vísar til at­burða síðustu vikna og þær „furðu­skýringar sem hafi grasserað í kjöl­far starfs­lokanna“. Tak­markaðar skýringar hafa hins vegar fengist á starfs­lokum Guð­mundar, en Frétta­blaðið greindi í síðasta mánuði frá sam­starfs­örðug­leikum og deilum milli Guð­mundar og Daníels Jakobs­sonar, odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins. Guð­mundur var ráðinn sem ó­flokks­bundinn bæjar­stjóri árið 2018.

Dreifa rógburði til að réttlæta fantabrögð

Guð­mundur fer hörðum orðum um bæjarstjórn Ísa­fjarðar­bæjar, þar sem meirihlutinn er skipaður af full­trúum Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar­flokks.

„Við sjáum sæng okkar út­breidda og viljum ekki vera hluti af sam­fé­lagi þar sem fyrir­ferða­miklar stjórn­mála­hreyfingar um­bera fanta­brögð freka kallsins og dreifa svo róg­burði til að rétt­læta þau,“ segir hann.

Dökku minningarnar verða flokkaðar sem spilli­efni

Nú sé fjöl­skyldan flutt að heiman í annað sinn á lífs­leiðinni en með stút­fullan bak­poka af góðum minningum. Dökku minningarnar verði hins vegar skildar eftir fyrir vestan.

„Hér eigum við marga góða vini og fyrr­verandi sam­starfs­fé­laga. Fólk sem við treystum, vitum að skilur mála­vexti og þekkir okkur. Við erum reynslunni ríkari og höfum lært heil­mikið um mann­legt eðli og inn­ræti. Bæði dökkar hliðar og ljósar. Dökku minningarnar ætlum við að skilja eftir fyrir vestan. Flokka þær sem spilli­efni. Þær ljósu tökum við með okkur á nýjan stað. Til moltu­gerðar og næringar.“