Guð­­mundur Felix Grétars­­son, sem fékk grædda á sig hand­­leggi og axlir í um­­fangs­­mikilli að­­gerð í Frakk­landi fyrr á þessu ári, er í ein­lægu við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins.

Guð­mundur fer um víðan völl í við­talinu og ræðir meðal annars um að­gerðina í janúar síðast­liðnum, bata­ferlið og ástina í lífi sínu.

Guð­mundur flutti til Frakk­lands árið 2013 og var von­góður um að komast í að­gerð hið fyrsta. Biðin var löng og liðu alls átta ár þar til hann gekkst undir að­gerðina.

Fyrstu tvö árin í Frakk­landi snerust ein­fald­lega um þessa bið og undir­búning fyrir að­gerð. Það breyttist þó þegar Guð­mundur fór út eitt kvöldið með ís­lenskri vin­konu, sat á bar drekkandi sóda­vatn, þegar Sylwia gekk inn og gaf sig strax á tal við hann.

„Ég var með krók og vanur því að fólk forðaðist mig, yrði skrítið eða færi í ein­hverja vor­kunn. Henni aftur á móti fannst þessi krókur svo heillandi að hún fór að spyrja mig út í allt á sama hátt og hún myndi spyrja mig hvar ég keypti buxurnar mínar,“ rifjar hann upp og viður­kennir að hafa undir eins heillast af þessari hispurs­lausu konu.

„Við enduðum á að spjalla allt kvöldið og svo hittumst við fljótt aftur. Þetta þróaðist í raun allt mjög hratt. Hún er pólsk en hafði búið í Frakk­landi í sjö ár og starfað sem jóga­kennari. Ég þóttist náttúr­lega hafa á­huga á jóga og öllu því tengdu,“ segir hann og hlær. „Við bara smullum saman alveg um leið. Þetta var mjög nota­legt sör­præs og breytti líka biðinni.“

Guð­mundur lýsir því að upp­haf­lega hafi biðin tekið veru­lega á.

„Þegar síminn hringdi fékk maður fiðring í magann og svo var það aldrei neitt. En þegar Sylwia kemur inn í líf mitt breytist þetta allt,“ segir Guð­mundur sem vissu­lega hélt á­fram að bíða eftir sím­tali um að hentugir hand­leggir hefðu fundist en þau Sylwia héldu jafn­framt lífinu á­fram saman.

„Tíminn líður hvort sem maður er að bíða eða ekki. Við bara fengum okkur hund og svo annan hund og vorum að fá okkur þann þriðja.“