Guðmundur Felix Guðmundsson, sem gekkst undir handleggjaágræðslu þann 13. janúar síðastliðinn er kominn á fætur.
Hann deildi skemmtilegu myndbandi af sér á Facebook í dag þar sem hann tekur nokkur dansspor og virðist vera við góða heilsu eftir umfangsmikla aðgerð.
Guðmundur sagði frá því fyrir helgi að bataferlið hafi gengið vel, einungis hafi smávægilegar aukaverkanir komið fram.
Guðmundur lenti í vinnuslysi árið 1998 er hann starfaði sem rafvirki og missti báða handleggina. Aðgerðin sem framkvæmd var í Lyon í Frakklandi fyrir um tveimur vikum síðan er sögð einstök aðgerð í sögu læknavísindanna en þetta er í fyrsta sinn sem slík aðgerð er framkvæmd í heiminum.