Guð­mundur Árni Stefáns­son, fyrr­verandi ráð­herra og sendi­herra, gefur kost á sér í odd­vita­sætið fyrir Sam­fylkinguna fyrir komandi bæjar­stjórnar­kosningar í Hafnar­firði.

Guð­mundur Árni til­kynnti þetta á Face­book-síðu sinni í gær­kvöldi.

Hann var bæjar­stjóri í Hafnar­firði á árunum 1986 til 1993 áður en hann settist á þing og varð síðar sendi­herra, fyrst í Sví­þjóð og svo í Banda­ríkjunum og Kanada. Próf­kjör Sam­fylkingarinnar fer fram þann 12. febrúar næst­komandi og óskar Guð­mundur eftir stuðningi í 1. sæti listans.

Skorað á hann að fara fram

„Um­liðin rúm 16 ár hef ég starfað í utan­ríkis­þjónustunni sem sendi­herra, m.a. í Stokk­hólmi, Was­hington, Nýju Delí og nú síðast á slóðum Vestur- Ís­lendinga í Winni­peg í Kanada. Þessara starfa hef ég notið til fullnustu og öðlast vini og nýja reynslu. Í desember síðast­liðnum óskaði ég eftir heim­flutningi vegna fjöl­skyldu­að­stæðna og einnig verð ég í leyfi næstu mánuði frá störfum í utan­ríkis­ráðu­neytinu,“ segir Guð­mundur Árni.

Hann segir að á síðustu vikum hafi margir jafnaðar­menn í Hafnar­firði sett sig í sam­band við hann og óskað eftir því að ég legði lið við að styrkja stöðu jafnaðar­manna í bænum. Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur farið með völdin í Hafnar­firði síðustu átta ár og á sama tíma hefur Sam­fylkingin verið í minni­hluta.

„Áður og fyrr stjórnuðu jafnaðar­menn í Hafnar­firði, þegar kraftur og fram­sýni í sam­starfi við bæjar­búa var ein­kennandi,“ segir hann í færslu sinni og bætir við að hann hafi nú á­kveðið að svara kallinu. Kveðst hann full­viss um að með góðri liðs­heild, skýrri stefnu og mark­vissum vinnu­brögðum geti Sam­fylkingin orðið stærsti flokkur bæjarins.

„Fái ég stuðning flokks­fé­laga minna í próf­kjörinu, þá stefni ég ó­hikað að því að Sam­fylking vinni góðan sigur í bæjar­stjórnar­kosningum í maí og tvö­faldi bæjar­full­trúa­tölu sína, þ.e. úr tveimur í fjóra. Og að af­loknum kosningum geti Sam­fylkingin í góðu sam­starfi við aðra flokka tekið við for­ystu um stjórn bæjarins.“

Þreytuleg valdatíð Sjálfstæðisflokksins

Guð­mundur Árni segir að það sé sannar­lega verk að vinna í Hafnar­firði og í mörg horn að líta.

„Átta ára þreytu­leg valda­tíð Sjálf­stæðis­flokksins í bænum kallar á ný vinnu­brögð þar sem verkin þurfa að tala í sam­ráði við ó­líka hópa og ein­stak­linga. Ég veit að Sam­fylkingin er til­búin í þau verk. Mála­flokkarnir þar sem þarf að taka á eru um allt; má nefna mál sem varða skipu­lag, fé­lags­mál, at­vinnu­mál, leik­skóla, grunn­skóla, í­þróttir, lofts­lag, jafn­rétti, hús­næði fyrir alla, svo fátt eitt sé talið.“

Guðmundur Árni segir mikil­vægt að allir Hafn­firðingar geti verið stoltir af bænum sínum. Það kalli á ný vinnu­brögð, opið stjórn­kerfi, kraft­mikla upp­byggingu og virka að­komu bæjar­búa að endur­bótum.

„Ég hætti í pólitík 2005. Hafði þá setið í bæjar­stjórn í Hafnar­firði í 12 ár, þar af bæjar­stjóri í 7 ár. Og síðan þing­maður í 13 ár, þar af ráð­herra í hálft annað ár. Ég hef því all­nokkra reynslu að baki, en einnig kem ég að þessum verkum fullur af krafti og eftir­væntingu eftir að hafa sinnt öðrum störfum um ára­bil. Það er verk að vinna. Hafnar­fjörður hefur alla burði til að vera fyrir­myndar­sveitar­fé­lag, en snúa þarf vörn í sókn. Ég vil gjarnan taka þátt í þeirri upp­byggingu með ungum jafnt sem eldri Hafn­firðingum á næstu árum.

Ég hlakka til bar­áttunnar sem fram­undan.“