Guðmundur Árni Stefánsson tilkynnti í dag að hann hyggst bjóða sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar. Hann segir held ljóst að jafnaðarmenn þurfum að tala skýrri röddu um grunnstefnu jafnaðarstefnunnar.

„Ég reyndi að tóna þetta með þessum hætti í bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði í vor. Ég held að bæjarbúar hafi hlustað og ég held að Íslendingar geri það líka,“ segir Guðmundur Árni í samtali við Fréttablaðið. „Ég ætla ekkert að dæma um árangur fyrri ára en tölurnar tala sínu máli. Níu prósent í síðustu þingkosningum er ekki viðunandi fyrir jafnaðarmannaflokk sem á að vera kjölfesta í íslenskum stjórnmálum.“

Guðmundur Árni vísar til þess þegar hann bauð sig síðast fram til þings, á upphafsárum Samfylkingarinnar, hafi flokkurinn fengið 32 prósent atkvæða.

„Það er sannarlega verk að vinna og ég er sannfærður um að með öflugum, ungum og kjörkuðum leiðtoga eins og Kristrúnu Frostadóttur með gömlum hund henni við hlið þá getum við náð eyrum fólks,“ segir hann.

Vill skýrari og einfaldari umræðu

Guðmundur Árni segist hafa fundið fyrir auknum byr í seglum Samfylkingarinnar að undanförnu.

„Maður skynjar það í umræðunni að innkoma Kristrúnar Frostadóttur á vettvang stjórnmálanna hefur skapað óróa innan raða andstæðinga flokksins,“ segir hann. „Hún hefur talað afskaplega skýrt og komið flóknum skilaboðum efnahagsmálanna fram með einföldum og öflugum hætti.“

Íslensk pólitík er að sögn Guðmundar Árna stundum gerð óþarflega flókin.

„Svo flókna að almenningur skilur hvorki upp né niður í því sem sagt og gert er,“ segir hann „Ég held við þurfum að einfalda þessi skilaboð og ég kann svolítið fyrir mér í þeim efnum. Ég sé líka að væntanlegur formaður kann það afskaplega vel líka. Ég held við gætum spilað ágætlega saman í forystu flokksins. Ég er til í þennan slag.“