Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM mun leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, verði tillaga uppstillingarnefndar flokksins í kjördæminu samþykkt. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins en tilkynningar um tillögu nefndarinnar er að vænta í dag.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður flokksins og núverandi oddviti kjördæmisins, verður í öðru sæti og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar flokksins, í því þriðja.

Jóna Þórey hafnaði boði um þriðja sæti

Samkvæmt heimildum blaðsins var Jónu Þóreyju Pétursdóttur, fyrr­ver­andi for­seta stúd­entaráðs Há­skóla Íslands, boðið þriðja sætið á lista. Jóna Þórey gaf kost á sér til forystu í kjördæminu og er hún sögð hafa hafnað boði uppstillingarnefndar um þriðja sæti.

Þórunn var þingmaður í tæpan áratug á árunum 1999 til 2011 og var umhverfisráðherra frá 2007 til 2009.

Þótt fyrir komi að oddvitar í kjördæmum tapi forystusætinu í prófkjöri, sætir það tíðindum ef oddviti er færður niður um sæti af uppstillingarnefnd.

Guðmundur þarf að berjast fyrir þingsæti sínu

Þessi ákvörðun nefndarinnar þýðir að Guðmundur Andri verður ekki í öruggu þingsæti. Því ber að halda til haga að hann hefur sjálfur látið þess getið að honum þyki kitlandi að freista þess að vinna annað þingsæti í kjördæminu. – aá, ókp