„Ég var farinn að tala um það við konuna mína hvort við ættum að flytja til Akureyrar, ekki síst þegar hún verður orðin að borg – en nú er ég hættur því,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar í umræðu um kattamálið á Akureyri.

Ákvörðun bæjarins að banna útigöngu katta frá og með árinu 2025 hefur vakið hörð viðbrögð, bæði innan bæjarins og utan.

Óðinn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri Rúv, sem er fæddur og uppalinn á Akureyri, er einn þeirra sem blandar sér í umræðuna. Í færslu á Facebook lýsir Óðinn að þótt hann sé fuglavinur hafi aldrei hvarflað að sér að banna ætti „þessum fornvini mannsins að fara um frjáls í þessu stutta sumri okkar - hvað þá árið um kring!“

Hann vísar til fréttar Rúv í gærkvöld og segir að skynsamasta röddin í fréttinni hafi verið rödd konunnar sem vill ekki samfélag þar sem börn fá ekki að alast upp í návist katta.

Vonar að ofstopinn gangi yfir

„Vona að þessi ofstopi í bæjarbúum gangi yfir í kosningunum í vor," segir Óðinn.

Guðmundur Andri er í hópi fjölmargra sem bregðast við með áðurnefndum ummælum við færslu Óðins. Verður vart annað sagt en landið leiki nánast á reiðiskjálfi eftir ákvörðun Akureyrarbæjar.

Egill Helgason þáttastjórnandi tekur þó annan pól í hæðina með ummælum sínum:

„Raddir vorsins þagna er bókin sem ég íhuga að skrifa hvert ár um varptímann,“ segir Egill.