Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra Ís­lands, segist vera von­svikinn vegna hand­töku rúss­neska stjórnar­and­stæðingsins Alexei Naval­ny í Moskvu í dag.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag sneri Naval­ny aftur til Rúss­lands eftir að hafa dvalið í Þýska­landi undan­farna fimm mánuði, eða síðan hann var fluttur þangað með sjúkra­flugi eftir að eitrað var fyrir honum. Naval­ny var hand­tekinn þegar hann lenti í Rúss­landi.

Guð­laugur Þór tjáði sig um hand­tökuna á Twitter í kvöld og sagðist honum vera brugðið. Hvatti hann yfir­völd í Rúss­landi til að sleppa honum lausum án tafar og hvatti hann jafn­framt rúss­nesk stjórn­völd til að leysa frá skjóðunni um No­vichok-eitrunina í ágúst síðast­liðnum sem kostaði Naval­ny næstum lífið. Naval­ny telur öruggt að menn á vegum Rúss­lands­for­seta hafi verið á bak við til­ræðið.

Charles Michel, for­seti leið­toga­ráðs Evrópu­sam­bandsins, sagði að hand­takan væri ó­á­sættan­leg og kallaði hann, eins og Guð­laugur Þór, eftir því honum yrði sleppt án tafar.