Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og orkumálaráðherra, segir að Ísland eigi alltaf að standa framar öðrum þjóðum þegar kemur að umhverfismálum. Hann segir mikilvægt að flýta fyrir orkuskiptum á landinu.

Í upphafi árs hefur styrkur köfnunardíoxíðs, sem stafar frá útblæstri bíla, oft farið yfir klukkustundarheilsuverndarmörk. Í raun hafa öll mörk ársins 2023 verið brotin. Samkvæmt Umhverfisstofnun getur köfnunarefnisdíoxíð ert lungun og langvarandi innöndun getur valdið lungnaskemmdum.

„Mengunin kemur meðal annars frá útblæstri frá bílum, skipunum í höfninni og álverunum. Ef við værum búin með orkuskiptin þá væru þessi vandamál ekki til staðar. Þess vegna ættum við að setja markið hátt. Opinberir aðilar ættu að ganga hratt fram með að endurnýja bílaflota og þann bílaflota sem við erum í viðskiptum við,“ segir hann.

Þá bendir Guðlaugur á að það sé misskilningur að það sé nagladekkjum að kenna að svifryk mælist í auknum mæli í upphafi árs.

„Hins vegar skiptir máli þegar það hlýnar og svifrykið kemur upp, að við rykbindum og hreinsum síðan göturnar. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg og sveitarfélögin séu vakandi fyrir því,“ segir hann.

Að sögn Guðlaugs á alltaf að líta á ávinninginn frekar en kostnaðinn þegar kemur að umhverfismálum.

„Við eigum að vera mjög kröfuhörð þegar kemur að mengun á Íslandi. Þegar bent er á að betur megi fara, þá fagna ég því. Við verðum samt að taka ákvarðanir út frá réttum forsendum,“ segir Guðlaugur.