Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segist ekki enn tilbúinn til að lýsa því yfir hvort hann ætli sér að taka formannsslaginn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins gegn núverandi formanni flokksins Bjarna Benediktssyni. Framboðsfrestur rennur út á þinginu sjálfu sem er þarnæstu helgi en Guðlaugur segist aðeins vera að íhuga framboð vegna þess mikla fjölda sem hefur haft samband og hvatt hann til þess.

„Það er illa geymt leyndarmál,“ segir Guðlaugur um það að hann íhugi framboðið.

Spurður út í hvað verður til þess að hann hugsi um að taka þetta skref segir hann umræðu um það hverjir eigi að vera ráðherrar flokksins út kjörtímabilið ekki hafa verið hvatann að því.

„Það snýst ekki um það. Umræðan var komin af stað áður en þetta kemur til. En þessar yfirlýsingar koma hins vegar á óvart og burtséð frá einstaka persónum og leikendum þá tel ég almennt gott að hafa þessa hluti eins skýra og hægt er. Óvissa er sjaldnast hjálpleg,“ segir Guðlaugur um það hvort að Jón Gunnarsson haldi áfram sem dómsmálaráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir taki við öðru ráðherraembætti.

Ekki lengur sama breiðfylkingin

Bjarni Benediktsson sagði í dag að öll forysta flokksins verði að taka ábyrgð á stöðu hans en fylgi flokksins hefur dalað í síðustu tveimur kosningum.

„Það fólk sem ég hef heyrt í og talað við hefur áhyggjur af stöðu flokksins. Við þurfum að ræða það hvað við þurfum að gera. Því það er ekkert flókið að ef við höfum ekki fylgi og stuðning að þá er erfiðara að koma okkur hugmyndum og hugsjónum í framkvæmd, og það væri skrítið ef við gerðum það ekki,“ segir Guðlaugur og að hann geti tekið undir það að þeir sem eru í forystu flokksins séu ekki undanskildir því.

Hann segir ekkert benda til þess að hugmyndir og hugsjónir flokksins eigi ekki upp á pallborðið hjá þjóðinni en að margir hafi áhyggjur af því að flokkurinn sé ekki að ná því fylgi sem hann gæti náð og að án þess náist ekki árangur.

„Við höfum tekið högg í kosningum áður og í gegnum tíðina, þó að það sé ekki eins og núna. Þá hafa menn lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Það fólk sem ég heyri í hefur áhyggjur af því að við séum ekki sú breiðfylking sem við vorum og stöndum ekki eins áberandi með „Stétt með stétt“ eins og við ættum að gera,“ segir hann og á þá við gamalla kjörorða flokksins um að allir Íslendingar ættu sömu hagsmuna að gæta.

Fyrsta samtalið við Bjarna

Guðlaugur segir að hann hafi ekki sett sér tímaplan varðandi þessa ákvörðun. „Þetta er stór ákvörðun og það er í mörg horn að líta. En ég mun ekki tilkynna þetta í fjölmiðlum,“ segir hann og að fyrsta samtalið, ákveði hann að fara fram, verði alltaf til formanns Sjálfstæðisflokksins.

Eru einhver önnur embætti innan flokksins sem þú myndir íhuga?

„Nei.“

En hvað myndi helst stoppa þig?

„Það verður alltaf að vega og meta hvað sé best til að ná árangri, fyrir flokkinn. Mér finnst þetta stór ákvörðun og maður verður að íhuga málið vel.“

En finnst þér þetta vera vantraustsyfirlýsing á Bjarna og hans leiðtogahæfileika, verði af þessu?

„Þetta er ekki vantrauststillaga á neinn. Þetta snýst ekkert um það. Þetta kemur til vegna þess að fólk er að hafa samband og hvetja mig til þess. Ef það væri ekki að því þá myndi ég ekki velta þessu fyrir mér .Mér ber skylda til þess að velta þessu alvarlega fyrir mér og Sjálfstæðismönnum öllum að velta því fyrir okkur hvernig er best að haga okkar málum til að ná árangri.“