Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er sigurvegari prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í öðru sæti varð Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Spennan var gríðarleg meðan á talningu stóð. Guðlaugur Þór leiddi samkvæmt fyrstu tölum en Áslaug Arna tók fram úr honum þegar nýjar tölur voru kynntar klukkan 23. Að lokum munaði aðeins 182 atkvæðum á þeim Guðlaugi og Áslaugu í fyrsta sætið, en Áslaug hafnaði að lokum í öðru sæti.

7493 tóku þátt í prófkjörinu, en gild atkvæði voru 7208, sem þýðir að 285 atkvæði voru ógild.

Brynjar hafnaði í sjötta sæti

Diljá Mist Einarsdóttir aðstoðarkona Guðlaugs Þórs í utanríkisráðuneytinu vann þriðja sætið af miklu öryggi, sama sæti og hún sóttist eftir.

Miklar sviptingar hafa hins vegar verið um fjórða, fimmta og sjötta sætið, en baráttan um þau sæti var á milli Hildar Sverrisdóttur, Brynjars Níelssonar og Birgis Ármannssonar.

Hildur Sverrisdóttir hreppti að lokum í fjórða sætið, Brynjar það fimmta og Birgir lenti í sjötta sæti.

Hörð botnbarátta

Nokkur barátta hefur einnig verið milli þeirra sem keppast við að komast á blað, en aðeins er raðað í átta sæti í prófkjörinu sem þrettán tóku þátt í. Kjartan Magnússon hefur haldið sjöunda sætinu frá fyrstu tölum en Sigríður Á Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Friðjón R. Friðjónsson eigandi KOM skiptust á að verma áttunda sætið fram eftir kvöldi. Friðjón hafði betur að lokum og Sigríður er ekki á blaði.

Auk þeirra sem getið hefur verið gáfu kost á sér Birgir Örn Stein­gríms­son, Her­dís Anna Þor­valds­dóttir, Ingi­björg H Sverris­dóttir og Þórður Kristjáns­son.

Niðurstöður prófkjörsins voru eftirfarandi:

  1. sæti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með 3508 atkvæði.
  2. sæti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra með 4912 atkvæði í 1. – 2. sæti.
  3. sæti Diljá Mist Einarsdóttir með 2875 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.
  4. sæti Hildur Sverrisdóttir með 2861 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.
  5. sæti Brynjar Níelsson með 3311 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti.
  6. sæti Birgir Ármannsson með 4173 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.
  7. sæti Kjartan Magnússon með 3449 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.
  8. sæti Friðjón R. Friðjónsson með 3148 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti.

7493 tóku þátt í prófkjörinu, en gild atkvæði voru 7208, sem þýðir að 285 atkvæði voru ógild.