Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir mögulegt formannsframboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra, geti verið merki um stöðubaráttu innan flokksins.

Hann segir umræðu Bjarna um að ekki sé víst að Guðrún Hafsteinsdóttir taki við ráðherrastólnum af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra líkt og gengið var út frá í upphafi geti ógnað stöðu Guðlaugs Þórs í ríkisstjórn.

„Þegar hann segir aðrir möguleikar þá berist böndin óhjákvæmilega að ráðherrastóli Guðlaugs Þórs. Því hann er væntanlega ekki að fara taka út varaformanninn og heldur ekki Áslaugu Örnu,“ segir Eiríkur og bætir við að mögulega hafi Guðlaugur Þór séð í hvað stefndi og viljað svara fyrir sig.

Morgunblaðið greindi frá því fyrst í gærmorgun að Guðlaugur Þór væri að íhuga framboð en það fékkst aldrei staðfest í gær frá Guðlaugi Þór sjálfum.

Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði í gær að hann gengi aldrei að neinu vísu á landsfundum og að tæknilega séð væru allir landsfundarfulltrúar í framboði.

Guðlaugur Þór staðfesti svo í samtali við Vísi í morgun að hann útilokaði ekki mögulegt framboð. Ef hann tæki ákvörðun um slíkt yrði Bjarni fyrstur til að frétta það.

„Það er væntan­lega verst geymda leyndar­mál á Ís­landi að það hafa mjög margir skorað á mig og það er fólk í Sjálf­stæðis­flokknum sem hefur miklar á­hyggjur af stöðu flokksins, eðli­lega, og það er ekkert ó­eðli­legt að svona um­ræða komi upp, sér­stak­lega í ljósi þess að við höfum ekki haldið lands­fund í fjögur ár. Ég held að flestir ef ekki allir sjálf­stæðis­menn vilji að við gerum betur,“ sagði Guð­laugur Þór meðal annars í samtali við Vísi.

Eiríkur segir tvö möguleika meðal annarra í stöðunni með mögulegu formannsframboði Guðlaugs Þórs.

„Guðlaugur Þór er að búa sér til stöðu með þessu held ég að einhverju leyti. Einn tilgangurinn gæti verið að skora á formanninn á hólm og reyna verða formaður. Annar tilgangur gæti líka verið að búa til stöðu til að tryggja ráðherrastólinn. Fá Bjarna til að tryggja hann í sessi inni í ríkisstjórninni og fá fram yfirlýsingu frá Bjarna um að hann sitji áfram,“ segir Eiríkur.

„Þá gæti hann mögulega fallið frá framboðinu,“ segir Eiríkur jafnframt en bætir við að erfitt sé að spá því hvort Guðlaugur Þór muni bjóða sig fram til formanns flokksins eða ekki.