Fyrr í dag lagði Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra fram kæru á hendur á flokks­systur sinni Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra fyrir að brjóta reglur í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík sem hefst á morgun.

Í sam­eigin­legri kæru Guð­laugs Þórs og Diljár Mistar Einars­dóttur, aðstoðarkonu ráðherrans, sem einnig tekur þátt í próf­kjörinu segir að við fram­kvæmd próf­kjörsins hafi verið brotið gegn reglum um próf­kjör Sjálf­stæðis­flokksins og gegn reglu­gerð Varðar sem er full­trúa­ráð flokksins í Reykja­vík. Kæran var send stjórn Varðar og óskað eftir að hún bærist til yfir­kjör­stjórnar.

„Í ljós hefur komið að Magnús Sigur­björns­son, bróðir Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur, fram­bjóðanda í próf­kjörinu og kosninga­stjóri, hafði að­gang að flokks­skrá Sjálf­stæðis­flokksins, það er ná­kvæmar og stöðugt upp­færðar upp­lýsingar um flokks­menn, í að­draganda próf­kjörsins og eftir að fram­boðs­frestur í próf­kjörinu rann út,“ segir í kæru Guð­laugs Þórs og Diljár Mistar.

Rakið er í kærunni að skrif­stofa Sjálf­stæðis­flokksins hafi ekkert að­hafst í málinu fyrr en um­boðs­maður fram­boðsins hafi óskað eftir upp­lýsingum síðast­liðinn mánu­dag um hverjir hefðu að­gang að flokks­skránni og hvort Magnús Sigur­björns­son hefði að­gang að henni. Eftir at­hugun hafi starfs­maður á skrif­stofu flokksins stað­fest að Magnús hefði að­gang að flokks­skránni. Síðan er sagt að stað­fest hafi verið að að­gangi Magnúsar hafi verið lokað á þriðju­daginn.

„Þessi stað­reynd sýnir fram á að einn fram­bjóðandi hafði að­gang að fé­lags­skrá flokksins í kjör­dæminu, grunn­gögnum flokksins fyrir kjör­skrá, í að­draganda próf­kjörs og á meðan á at­kvæða­greiðslu utan­kjör­fundar stóð. Þetta er skýrt brot á 2. máls­grein 4. greinar próf­kjörs­reglnanna og enn fremur á skjön við á­kvæði 24. greinar próf­kjörs­reglnanna um próf­kjörs­skrár, gerð þeirra, fram­kvæmd og að­gang að próf­kjörs­skrá,“ segir í kæru Guðlaugs Þórs og Diljár Mistar.

„Þessar upp­lýsingar eru sér­stak­lega á­huga­verðar í ljósi á­bendinga sem borist hafa, meðal annars um að ný­skráðir Sjálf­stæðis­menn hafi fengið sím­tal frá fram­boði Ás­laugar Örnu þar sem þeir eru boðnir vel­komnir í flokkinn. Rennir það stoðum undir þá á­lyktun að fram­boð Ás­laugar Örnu hafa haft að­gang að þessum ná­kvæmu per­sónu­upp­lýsingum og nýtt þær í þágu fram­boðsins,“ segir á­fram í kærunni.

Þá er sagt að málið sé al­var­legt. Það snúist meðal annars um vinnslu per­sónu­upp­lýsinga og að­gang að per­sónu­upp­lýsingum. Óskað er eftir því í kærunni að yfir­kjör­stjórn og aðrir fram­bjóð­endur verði upp­lýstir um þennan að­stöðu­mun fram­bjóð­enda.

„Nauð­syn­legt er að yfir­kjör­stjórn og fram­kvæmda­stjórn flokksins kanni nánar hugsan­legar af­leiðingar meintra brota og geri við­eig­andi ráð­stafanir lögum sam­kvæmt,“ segir að endingu í kæru Guð­laugs Þórs Þórðar­sonar og Diljár Mistar.