Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er í sóttkví eftir að einn úr starfsliði ráðuneytisins greindist með Covid-19 í skimun í gær. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Þar kemur fram að ráðherra hafi farið í PCR próf í morgun og að hann fari svo í annað á laugardag. Verði niðurstaðan neikvæð þá er hann laus undan sóttkví. Hann hefur að sögn tilkynningar ekki fundið fyrir neinum einkennum.

Auk hans eru tveir starfsmenn ráðuneytisins í sóttkví.

Guðlaugur Þór missir af þingsetningu í sóttkvínni og mun því varamaður taka sæti hans þar í dag. Fyrr í dag var greint frá því að fjórir varamenn taki sæti á þingi í dag á þingsetningunni.