Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti ræðu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag. Þar varaði hann við því að COVID-19 faraldurinn væri notaður til að skerða borgaraleg réttindi og frelsi.
Enginn vafi væri á að faraldurinn hefði reynt mjög á ríkisstjórnir og íbúa heimsins en nauðsynlegt væri að finna jafnvægi milli takmarkana og opins samfélags. Réttindi fólks mætti þó ekki skerða varanlega eftir að faraldurinn tekur enda. Faraldurinn veitti þó einnig tækifæri til að gera betur, með mannréttindi að leiðarljósi.
„Faraldurinn má ekki nota til að réttlæta skerðingar á frelsi og borgaralegum réttindum til langframa,“ sagði Guðlaugur Þór og nauðsynlegt væri tryggja þau gildi sem skipta okkur miklu máli, það er friðar- og öryggismál, réttarríkið og mannréttindi, einkum réttindi kvenna, barna og LGBTI+ fólks.

Nú stendur yfir 46. fundalota ráðsins. Þetta er í fimmta sinn sem Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið en hann var fyrstur íslenskra utanríkisráðherra til að sækja ráðherraviku mannréttindaráðsins árið 2017. Um fjarfund er að ræða að þessu sinni vegna heimsfaraldursins.
Bandaríkin snúin aftur til leiks
Auk þess fagnaði hann endurkomu Bandaríkjanna að starfi ráðsins en undir stjórn Donald Trumps, fyrrverandi forseta, sögðu þau sig úr ráðinu og tók Ísland sæti þeirra í hálft kjörtímabil. Endurbóta væri þörf í mannréttindaráðinu sem gerði enn mikilvægara að unnið yrði þar að umbótum þar og ráðið héldi áfram baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum.
Antony Blinken, nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því fyrir skömmu að Bandaríkin hefðu í hyggju að vinna með mannréttindaráðinu á nýjan leik en þar væri engu að síður marga vankanta að finna. Nefndi hann einkum að Ísraelsríki hefði mátt sæta ósanngjarnri meðferð ráðsins.
Fagnar frelsun al-Hathloul
Ráðherrann lagði á það áherslu í ræðu sinni að mannréttindi giltu um alla jarðarbúa, óháð búsetu. Þörf væri á að varpa ljósi á þau ríki sem virða þau ekki og sinntu ekki skuldbindingum sínum um að standa vörð um mannréttindi í samræmi við þær. Hann fagnaði því að sádí-arabíska baráttukonan fyrir kvenréttindum, Loujain al-Hathloul, væri nú laus úr haldi. Ísland talaði fyrir máli hennar er það sat í ráðinu í 18 mánuði frá júlí 2018 til ársloka 2019.

„Ég vona innilega að þetta sé til marks um að raunverulegar umbætur séu í vændum og bjartari tímar fram undan fyrir konur og þau sem berjast fyrir bættum mannréttindum í Sádi-Arabíu,“ sagði Guðlaugur Þór.
Nauðsynlegt að Filippseyjar láti orð fylgja efndum
Er Ísland sat í ráðinu fjallaði það einnig um meint mannréttindabrot stjórnar Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, í stríði hans gegn vímuefnum. Stjórnvöld þar hefðu síðastliðið haust greint íslenskum yfirvöldum frá því að þau væru reiðubúin í samstarf með Íslandi um ályktun um mannréttindi í Filippseyjum. Ráðherrann þakkaði Filippseyjum fyrir samstarfið en sagði að orð þyrftu að fylgja efndum.
Guðlaugur Þór lýsti í ræðu sinni áhyggjum af þróun mannréttinda í Rússlandi vegna mikilla mótmæla þar í landi og handtöku stjórnarandstæðingsins Aleksei Navalny sem nýlega var dæmdur til fangelsisvistar.
„Við skorum á stjórnvöld í Rússlandi að láta kjör landsins í mannréttindaráðið verða sér til hvatningar um að leggja nýjar áherslur heima fyrir þar sem öllum ríkisborgurum væru tryggð full pólitísk og félagsleg réttindi, svo sem málfrelsi og réttinn til friðsamlegra mótmæla,“ sagði hann. Rússland tók nýlega sæti í mannréttindaráðinu.
Aðför að lýðræðislegum réttindum væru áhyggjuefni í fleiri löndum og nefndi hann meðal annars Hvíta-Rússland, þar sem stjórnvöld hafa gengið hart fram gegn stjórnarandstæðingum og Hong Kong, þar sem kínversk yfirvöld hafa reynt með valdi að kveða niður mótmælaaðgerðir. Guðlaugur Þór sagði að grafið hefði verið undan lýðræði, reglum réttarríkisins og borgaralegum réttindum íbúa Hong Kong.
Ráðherrann sagði að víða um heim sætti fólk ofsóknum vegna kynhneigðar, trúarbragða eða pólitískra skoðana sinna. Nauðsyn væri að tryggja þyrfti öryggi talsmanna mannréttinda og blaðamanna sem stefndu lífi sínu í voða með því að beina kastljósi heimsins að mannréttindabrotum. Þeir væru að nýta sér réttindi sem sérhver jarðarbúi sannarlega ætti að hafa.
Hér má lesa ræðu Guðlaugs Þórs í heild sinni á vef Stjórnarráðsins.