„Þetta er mjög alvarlegt mál,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Þar ræddi hann um afhjúpun Stundarinnar um að 1.500 tonn af íslensku plasti hafa legið óhreyfð frá árinu 2016 í niðurníddu vöruhúsi í Suður-Svíþjóð. Úrvinnslusjóður hafði áður fullyrt að plast, sem sent væri frá Íslandi til Svíþjóðar í samvinnu við endurvinnufyrirtækið Swerec, væri allt endurunnið eða endurnýtt.

Guðlaugur Þór sagði í morgun að blaðamaður Stundarinnar hafi fyrst vakið athygli hans á málinu á aðalfundi Úrvinnslusjóðs. „Í kjölfarið þá töluðum við strax við stjórn Úrvinnslusjóðs, eins og fólk hefur kannski tekið eftir, í mínum huga þarf í fyrsta lagi að komast að því hvað þarna er á ferðinni. Í öðru lagi að sjá til þess að þetta plast fari þangað sem það á að fara. Í þriðja lagi þarf að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur,“ sagði hann.

„Í mínum huga skiptir líka máli að þetta ferli sé gagnsærra og fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur að fá fréttir sem þessar og viti það þegar það er að flokka og skila að það viti hvert það fer og hvernig það sé unnið. Ég vonast til að umræðan um þetta mjög svo alvarlega mál verði til þess að vekja athygli okkar allra á þessu og það verði hægt að nýta þetta eitthvað þannig að það skili sér til framtíðar.“

Ólafur Kjartans­son, fram­kvæmda­stjóri Úr­vinnslu­sjóðs, sagði við Fréttablaðið fyrir helgi að á­byrgðin í þessu máli liggi hjá al­farið hjá Swerec.

Guðlaugur Þór benti á að hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafi farið fram á það á síðasta kjörtímabili að Ríkisendurskoðun geri úttekt á sjóðnum. Úrvinnslusjóður fékk að vita af málinu í október 2020, í þetta ár sem er liðið hefur plastið verið á landi palestínskrar flóttafjölskyldu sem hefur borgað margar milljónir til að koma þessu í burtu. Guðlaugur Þór var spurður hvort íslensk fyrirtæki beri einhverja ábyrgð í þessu máli. „Þetta er bara ekkert í lagi, þegar búið er að borga fyrir að plast fari í endurvinnslu að það fari svo ekkert í endurvinnslu, það er bara ekkert í lagi,“ sagði hann.

Varðandi stöðuna í dag þá sagði Guðlaugur Þór að nýr stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs hafi talað skýrt um hvað eigi að gera í málinu. „Ég hef ekki vitneskju um að það sé neitt annað ekki í lagi þegar kemur að þessum málum,“ sagði hann. „En það breytir engu, þetta verður skoðað og það er gott að það sé úttekt á sjóðnum hjá Ríkisendurskoðun. Þannig að við tökum þetta mál mjög alvarlega, en ég hef enga vitneskju um að það fyrirkomulag sem við erum með núna sé ekki að virka en við erum að skoða það líka.“