Guð­laugur Þór Þórðar­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins sem áður var innan­ríkis­ráð­herra, tók í gær við lyklum að ráðu­neyti um­hverfis-, orku- og lofts­lags­mála. „Það er heiður að fá traustið til að gera það,“ segir Guð­laugur. „Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikil­vægi þessa mála­flokks.“

Guð­laugur segist vera með­vitaður um að verk­efnið sem hann fær í hendurnar sé mjög krefjandi og mikil­vægt að um það náist góð sátt meðal allra sem tengjast því. „Það spannar næstum alla þjóðina,“ segir hann.

Sjálf­stæðis­flokkurinn fékk ekki góða ein­kunn í Sólinni – Ein­kunna­gjöf Ungra um­hverfis­sinna fyrr í vor, eða 21 stig af hundrað mögulegum. Ein­hverjir ráku upp stór augu yfir því að Guð­laugur skuli hafa fengið þetta ráðu­neyti en ekki þing­maður frá Vinstri Grænum, sem hafa verið þekktari fyrir að beita sér fyrir lofts­lags­málum. Guð­laugur segir ekki átta sig á því hvers vegna það sé.

„Ef við skoðum sögu Sjálf­stæðis­flokksins þá höfum við alltaf verið framar­lega þegar kemur að um­hverfis­málum,“ segir Guð­laugur. Hann bendir einnig á að hann hefur sjálfur beitt sér fyrir mála­flokknum sem utan­ríkis­ráð­herra auk þess að hafa tekið þátt í gras­rótinni og ung­liða­hreyfingunni.

„Við erum að fara í græna byltingu“

Það vakti at­hygli að það sem áður var um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytið skuli nú vera um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytið. Guð­laugur segir það mikil­vægt að sam­ráð sé á milli þessara mála­flokka.

„Við erum að fara í græna byltingu, við erum að fara í orku­skipti. Við erum að fara úr jarð­efna­elds­neyti og í enn auknum mæli í græna orku þannig að við þurfum alltaf að ræða þessi mál í sam­hengi,“ segir Guð­laugur.

Í stjórnar­sátt­málanum er sett mark­mið um að Ís­land nái kol­efnis­hlut­leysi og fullum orku­skiptum eigi síðar en árið 2040 „og verði þá óháð jarð­efna­elds­neyti fyrst ríkja.“

Til að ná því mark­miði er meðal annars talað um að byggja nýjar virkjanir. „Mestu skiptir að það verði gert af var­færni gagn­vart við­kvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orku­notkun sam­hliða út­fösun jarð­efna­elds­neytis,“ segir í sátt­málanum. Þá er einnig talað um að bæta orku­nýtingu í virkjunum sem fyrir eru.

Setja á sér­stök lög um nýtingu vindorku, sam­kvæmt sátt­málanum. „Mikil­vægt er að breið sátt ríki um upp­byggingu slíkra vindorku­vera og til­lit sé tekið til sjón­rænna á­hrifa, dýra­lífs og náttúru.“

Einnig er horft til orku­skipta í fiski­skipum og innan­lands­flugi. „Stigin verða skref til að hefja sjálf­bæra lí­f­olíu­fram­leiðslu til að flýta orku­skiptum í fiski­skipum og unnið að því að greiða götu verk­efna á því sviði. Stutt verður við mögu­leg þróunar­verk­efni í orku­skiptum í innan­lands­flugi,“ segir í sátt­málanum.

Í sáttmálanum er einnig talað um að draga úr hindrunum fyrir fyrirtæki í gildandi regluverki til að auka sveiganleika þeirra. Aðspurður hvernig þau markmið rími við markmið um kolefnishlutleysi segir Guðlaugur að um sé að ræða samstarfsverkefni þar sem reynt er að finna sem bestar lausnir.

„Við þurfum að fá tæknilausnir og leggja áherslu á nýsköpun á þessu sviði en sömuleiðis að bera okkur saman við aðrar þjóðir og læra af því sem þær gera vel," segir Guðlaugur. „Því fleiri sem að koma að þessu máli því betra því aðalatriðið er að ná markmiðunum."

Þá segir Guðlaugur að þrátt fyrir að margt sé gott og vel skilgreint í sáttmálanum þá þurfi enn að vinna að útfærslum í sameiningu. „Þá er best að gefa sér ekki niðurstöðu til að byrja með heldur hefja það verk sem er að skoða hvaða leiðir séu bestar."

Vilja meira sam­ráð í á­kvörðunar­töku

Tinna Hall­gríms­dóttir for­maður Ungra um­hverfis­sinna segir það miður að í stjórnar­sátt­málanum sé ekki minnst á sam­ráð við al­menning, hags­muna- eða fé­laga­sam­tök þegar kemur að á­kvörðunar­töku í lofts­lags- og um­hverfis­málum.

„Þetta er á­hyggju­efni þar sem upp­byggi­legt sam­ráð er lykillinn að betri lausnum við stórum vanda­málum svo sem lofts­lags­vánni sem og að mynda sátt um þær á­kvarðanir sem eru teknar til að sporna við lofts­lags­breytingum og öðrum um­hverfis­vám,“ segir Tinna.

Tinna Hallgrímsdóttir formaður Ungra umhverfissinna.
Fréttablaðið/Anton

Hreyfingin vonast til að sjá átak hvað það varðar á kjör­tíma­bilinu. „Enda er þetta eitt af þeim mál­efnum sem ríkis­stjórnar­flokkarnir þrír fengu allir stig fyrir í Sólinni - Ein­kunna­gjöf Ungra um­hverfis­sinna fyrir kosningarnar í lok septem­ber,“ segir Tinna.

Engin leyfi til olíu­leitar

Í stjórnar­sátt­málanum er boðað að Ís­land setji sér sjálf­stætt lands­mark­mið um 55 prósent sam­drátt í losun á beinni á­byrgð Ís­lands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Tinna segir það já­kvætt að svo­leiðis mark­mið sé sett fram og skref í rétta átt þó það sé „ekki á pari við mark­mið hinna Norður­landanna.“

„Nauð­syn­legt er að lög­festa mark­miðið og upp­færa að­gerða­á­ætlun í sam­ræmi við það til að tryggja að það raun­gerist,“ segir Tinna.

Þá er einnig til­kynnt að ríkis­stjórnin muni ekki gefa út leyfi til olíu­leitar í efna­hags­lög­sögu Ís­lands, á­kvörðun sem er fögnuð af Ungum um­hverfis­sinnum. „Enda er ljóst að lág­kol­efna­hag­kerfi fram­tíðarinnar verður ekki knúið af jarð­efna­elds­neyti heldur endur­nýjan­legum orku­gjöfum,“ segir Tinna.

Dregið hefur úr á­ætlunum varðandi mið­há­lendis­þjóð­garð og stefnir ríkis­stjórnin núna á að inn­lima þegar frið­lýst svæði og jökla inn í Vatna­jökuls­þjóð­garð sam­kvæmt stjórnar­sátt­málanum.

„Það er afar já­kvætt að stækka eigi Vatna­jökuls­þjóð­garð með því að sam­eina þau svæði sem nú þegar eru friðuð innan þjóð­lenda en á­kjósan­legast væri að stefna að því að stækka verndunar­svæðin í skrefum og stefna að því að friða allar þjóð­lendur innan há­lendis­línu eins og fyrir­ætlað var í frum­varpi ráð­herra um mið­há­lendis­þjóð­garð á síðasta kjör­tíma­bili,“ segir Tinna.

Hér fyrir neðan má sjá á­herslur stjórnar­sátt­málans í lofts­lags-, orku- og um­hverfis­málum:

Lofts­lags­mál

» Hug­mynda­fræði sjálf­bærni og rétt­látra um­skipta og aukinnar sam­keppnis­hæfni verður leiðar­stef ríkis­stjórnarinnar í yfir­standandi um­breytingum vegna lofts­lags­vá­rinnar og tækni­breytinga sem hafa á­hrif á öllum sviðum sam­fé­lagsins. Þessum mark­miðum sem og fram­kvæmd og eftir­fylgni að­gerða­á­ætlunar í lofts­lags­málum verður fylgt eftir í sam­vinnu for­sætis­ráð­herra og ráð­herra um­hverfis­mála til að auka sam­hæfingu, sam­vinnu og slag­kraft innan Stjórnar­ráðsins. Sett verður sam­ræmd stefna um sjálf­bæra þróun í sam­ræmi við heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna.

» Vísinda­leg þekking er undir­staða allra að­gerða stjórn­valda í lofts­lags­málum. Töl­fræði­upp­lýsingar, upp­lýsinga­gjöf, fræðsla og miðlun um lofts­lags­mál verður efld.

» Ís­land verði lág­kol­efnis­hag­kerfi og nái kol­efnis­hlut­leysi eigi síðar en 2040.

» Sett verður sjálf­stætt lands­mark­mið um 55% sam­drátt í losun á beinni á­byrgð Ís­lands fyrir 2030 miðað við 2005.

» Lögð verður fram þings­á­lyktun um orku­skipti og út­fösun jarð­efna­elds­neytis, þar sem settar verða fram að­gerðir og grunnur lagður að því að fullum orku­skiptum verði náð eigi síðar en 2040 og Ís­land verði óháð jarð­efna­elds­neyti fyrst þjóða.

» Stjórn­völd munu í sam­ráði við sveitar­fé­lög og at­vinnu­lífið setja á­fanga­skipt losunar­mark­mið fyrir hvern geira. Já­kvæðum fjár­festinga­hvötum og skil­virkum í­vilnunum verður beitt sam­hliða gjald­töku á losun gróður­húsa­loft­tegunda.

» Sett verða metnaðar­full mark­mið um sam­drátt í losun vegna land­notkunar og á­hersla lögð á að efla náttúru­miðaðar lausnir, m.a. með hvötum til aukinnar skóg­ræktar, land­græðslu og endur­heimt vot­lendis. Efla þarf rann­sóknir á losun og bindingu kol­efnis vegna sam­spils land­nýtingar og lofts­lags­mála.

» Ríkis­stjórnin mun ekki gefa út leyfi til olíu­leitar í efna­hags­lög­sögu Ís­lands.

» Ís­land á að verða vagga nýrra lausna á grunni auð­linda, þekkingar og stað­setningar. Stutt verður við græna at­vinnu­upp­byggingu og fjár­festingar á­samt því að greiða götu verk­efna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kol­efnis, upp­byggingu hring­rásar­hag­kerfis með fjöl­nýtingu orku­strauma og orku­skipta.

» Unnin verður á­ætlun um að efla og þróa rann­sóknir og þekkingu á sviði grænna lausna í þágu at­vinnu­lífs og al­þjóð­legra verk­efna í sam­starfi við al­þjóð­lega aðila. Reglu­verk verður endur­skoðað með hlið­sjón af þessum mark­miðum og tryggt að allar at­vinnu­greinar geti tekið þátt í nauð­syn­legum lofts­lags­verk­efnum.

» Að­gengi að fjár­magni vegna lofts­lags­verk­efna þarf að tryggja, endur­skil­greina þarf Ný­sköpunar­sjóð at­vinnu­lífsins og veita við­bótar­fjár­magni inn í Tækni­þróunar­sjóð fyrir grænar lausnir.

» Stjórn­sýsla lofts­lags­mála verður styrkt og hlut­verk Lofts­lags­ráðs tekið til endur­skoðunar með aukinni á­herslu á ráð­gefandi hlut­verk og vísinda­starf auk að­halds- og eftir­lits­hlut­verks gagn­vart stjórn­völdum.

» Að­gerða­á­ætlun um sam­fé­lags­lega að­lögun að lofts­lags­breytingum verður unnin á grunni fyrir­liggjandi að­lögunar­stefnu.

Orku­mál og náttúru­vernd

» Lokið verður við þriðja á­fanga ramma­á­ætlunar. Kostum í bið­flokki verður fjölgað. Lög um verndar- og orku­nýtingar­á­ætlun verða endur­skoðuð frá grunni. Mark­miðið er að tryggja nýtingu orku­auð­linda með hag­kvæmum og sjálf­bærum hætti.

» Sér­stök lög verða sett um nýtingu vindorku með það að mark­miði að ein­falda upp­byggingu vindorku­vera til fram­leiðslu á grænni orku. Á­hersla verður lögð á að vindorku­ver byggist upp á af­mörkuðum svæðum nærri tengi­virkjum og flutnings­línum þar sem unnt verður að tryggja af­hendingar­öryggi. Mikil­vægt er að breið sátt ríki um upp­byggingu slíkra vindorku­vera og til­lit sé tekið til sjón­rænna á­hrifa, dýra­lífs og náttúru. Í því sam­hengi verður tekin af­staða til gjald­töku fyrir slíka nýtingu. Stefna verður mótuð um vindorku­ver á hafi.

» Stofnaður verður þjóð­garður á þegar frið­lýstum svæðum og jöklum á þjóð­lendum á há­lendinu með breytingu á lögum um Vatna­jökuls­þjóð­garð. Á­hersla verður lögð á sam­tal og sam­vinnu við heima­menn og svæðis­ráðum fjölgað. Um at­vinnu­starf­semi í nýjum þjóð­garði fer sam­kvæmt lögum um Vatna­jökuls­þjóð­garð sem eru í sam­ræmi við megin­reglur nýrra laga um at­vinnu­starf­semi í landi ríkisins.

» Lokið verður við endur­skoðun á stefnu um líf­fræði­lega fjöl­breytni.

» Á­hersla verður lögð á vinnu við skipu­lag haf- og strand­svæða.

» Lokið verður við heildar­endur­skoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spen­dýrum.

» Horft verður til laga­breytinga til að tryggja skil­virkari máls­með­ferð inn­viða­fram­kvæmda á borð við flutnings­kerfi raf­orku, m.a. á grund­velli fyrir­liggjandi vinnu þar um.

» Lokið verður við inn­leiðingu fram­tíðar­lausna til með­höndlunar á brennan­legum úr­gangi í stað urðunar.

» Ríkis­stjórnin mun beita sér fyrir stór­á­taki í sam­vinnu við sveitar­fé­lög í frá­rennslis­málum þannig að þau standist ítrustu kröfur náttúru­verndar um allt land eigi síðar en 2028. Þá verður stuðlað að ný­sköpun og notkun helstu tækni­nýjunga við endur­vinnslu og flokkun sorps. Byggt verður undir endur­vinnslu og hring­rásar­hags­kerfi með já­kvæðum hvötum gagn­vart ein­stak­lingum og fyrir­tækjum.