Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur aftur náð forystu í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík þegar 5973 atkvæði hafa verið talin. Guðlaugur er kominn með 2920 atkvæði í 1. sæti en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er með 2752 atkvæði í það sæti og hana vantar því 168 atkvæði til að ná forystunni af honum. Enn á eftir að telja um það bil 1500 atkvæði.

Spennan hefur verið gríðarleg í kvöld en Guðlaugur Þór leiddi samkvæmt fyrstu tölum en Áslaug Arna tók fram úr honum þegar nýjar tölur voru kynntar klukkan 23. Hún er í örðu sæti samkvæmt nýjustu tölum.

Diljá og Hildur öruggar í þriðja og fjórða

Diljá Mist Einarsdóttir hefur verið örugg í þriðja sæti en miklar sviptingar hafa verið um fjórða, fimmta og sjötta sætið, en baráttan þar er milli Hildar Sverrisdóttur, Brynjars Níelssonar og Birgis Ármannssonar. Sem stendur er Hildur Sverrisdóttir í fjórða sæti, Birgir í því fimmta og Brynjar í því sjötta.

Mikil spenna um Birgi og Brynjar

Hildur er nú með nokkuð örugga stöðu í fjórða sæti með um 350 atkvæða forskot á næsta mann, en Brynjar þarf aðeins 24 atkvæði til að ná Birgi og fimmta sætinu. Það er því óhætt að segja að spenna ríki um fleiri sæti en forystusætið.

Friðjón ýtir Sigríði út af blaði

Kjartan Magnússon hefur haldið sjöunda sætinu frá fyrstu tölum en nú er Friðjón R. Friðjónsson kominn í áttunda sætið og hefur ýtt Sigríði Á Andersen niður fyrir sig.

Tölur um miðnættið

Leikar standa þannig þegar 5973 atkvæði hafa verið talin:

Í fyrsta sæti er Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með 2.920 atkvæði.

Í öðru sæti er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra með 4.061 atkvæði í 1. – 2. sæti.

Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir með 2.440 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.

Í fjórða sæti er Hildur Sverrisdóttir með 2.331 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.

Í fimmta sæti er Birgir Ármannsson með 2.753 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti.

Í sjötta sæti er Brynjar Níelsson með 3.209 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.

Í sjöunda sæti er Kjartan Magnússon með 2.850 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.

Í áttunda sæti er Friðjón R. Friðjónsson með 2.602 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti.

Auk þeirra sem getið hefur verið gáfu kost á sér Birgir Örn Stein­gríms­son, Frið­jón R Frið­jóns­son, Her­dís Anna Þor­valds­dóttir, Ingi­björg H Sverris­dóttir og Þórður Kristjáns­son.

Fréttin verður uppfærð.