Guðlaugur Þór Þórðarson er enn efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík samkvæmt nýjustu tölum sem lesnar voru upp í beinni útsendingu á Facebook síðu Sjálfstæðisflokksins núna klukkan 21:00.
Talin hafa verið 3113 atkvæði. Í fyrsta sæti með 1525 atkvæði er Guðlaugur Þór. Í öðru með 2116 atkvæði í 1.-2. sæti er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Í þriðja sæti með 1260 atkvæði í 1-3. sæti er Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarkona Guðlaugs.
Guðlaugur hefur aðeins 100 atkvæða forskot á Áslaugu þegar 3113 atkvæði hafa verið talin. Munurinn minnkar því á milli þeirra frá fyrstu tölum. Diljá Mist er nokkuð örugg í þriðja sæti en 420 atkvæði skilja milli hennar og Brynjars í það sæti. Þá er gríðarlega mjótt á munum milli Brynjars sem er í 4. sæti sem stendur og Hildar Sverrisdóttur. Hana vantar aðeins 17 atkvæði í það sæti til að ná Brynjari.
7500 manns höfðu kosið þegar kjörstaðir lokuðu klukkan 18:00. Endanlegar tölur munu liggja fyrir þegar allar kjördeildir hafa verið gerðar upp.
Mikil þátttaka hefur verið í prófkjörinu og var örtröð á bílastæði Valhallar nú síðdegis þegar Fréttablaðið bar að garði. Kjörstaðir lokuðu klukkan 18:00. Hluti kjörstjórnar lokaði sig inni á 2. hæð í húsinu nú síðdegis og hefur verið þar að telja atkvæði síðan.
Þrettán manns eru í framboði í prófkjörinu sem er sameiginlegt fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmi. Greint verður frá næstu tölum klukkan 23:00 í kvöld eða mögulega fyrr, gangi talning vel.
Sundurliðun talna þegar 3113 atkvæði hafa verið talin má nálgast hér.
Niðurstöður samkvæmt nýjustu tölum:
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra efstur með 1.525 atkvæði.
Í öðru sæti er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra með 2.116 atkvæði í 1. – 2. sæti.
Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir með 1.260 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.
Í fjórða sæti er Brynjar Níelsson með 1.164 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.
Í fimmta sæti er Hildur Sverrisdóttir með 1.573 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti.
Í sjötta sæti er Birgir Ármannsson með 1.849 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.
Í sjöunda sæti er Kjartan Magnússon með 1.484 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.
Í áttunda sæti er Sigríður Á. Andersen með 1.373 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti.
Fréttin hefur verið uppfærð.