Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir að Guð­laugur Þór Þórðar­son um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra, hafi ekki rætt við hann um hugsan­legt for­manns­fram­boð þess síðar­nefnda á lands­fundi flokksins um aðra helgi.

Greint var frá því í gær að Guð­laugur Þór lægi undir feldi og væri að í­huga að bjóða sig fram til formanns gegn Bjarna Bene­dikts­syni sem einn hefur til­kynnt um fram­boð.

Bjarni er gestur í Dag­málum, streymi Morgun­blaðsins á netinu, þar sem hann ræðir meðal annars um stöðuna í flokknum og komandi lands­fund. Bjarni segist aldrei ganga að neinu sem vísu varðandi lands­fund.

„En Guð­laugur hefur ekki lýst yfir neinu fram­boði, þannig að eftir því sem mér sýnist er enginn annar sem hefur form­lega stigið fram,“ segir Bjarni meðal annars í við­talinu sem vísað er til í Morgun­blaðinu í dag. Hann kveðst þó með­vitaður um það að hann þurfi að endur­nýja um­boð sitt á hverjum lands­fundi.

Þegar Bjarni er spurður hvort Guð­laugur Þór hafi látið í ljós ein­hverjar efa­semdir um for­ystu Bjarna innan ríkis­stjórnarinnar eða þing­flokks Sjálf­stæðis­flokksins, segir hann:

„Nei nei. Við höfum ekki rætt þessi mál. Það hafa ekki verið nein átök milli okkar, bara á­gætis sam­starf verð ég að segja. Að því leytinu til kæmi mér á ó­vart ef þetta endaði með ein­hverjum á­tökum um for­ystuna í flokknum. Ég held að á þessum tíma­punkti á kjör­tíma­bilinu og á flokks­legum nótum þá væri lang­mestur á­vinningur að því fyrir alla að menn fyndu leiðir til þess að snúa bökum saman og styrkja flokkinn innan frá og sækja fram. En þetta er mál sem er í höndum lands­fundar að út­kljá ef til þess kemur. Enn sem komið er er ekkert annað fram­boð komið fram.“