Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, býður sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins. Það tilkynnti hann á fundi í Valhöll rétt í þessu við mikil fagnaðalæti viðstaddra en mikill fjöldi er kominn saman til að hlusta á tilkynningu Guðlaugs.

Guðlaugur Þór sagði á fundinum í Valhöll að enginn stjórnmálamaður ætti betri stuðningsmenn og vini en hann.

„Ég er óendanlega þakklátur fyrir það,“ sagði hann og að þau gætu klárað saman einn landsfund.

Hann sagði að án stuðningsmanna sinna væri hann ekki neitt, eins og flokkurinn sjálfur.

„Við vitum alveg hvernig staðan er,“ sagði Guðlaugur og að það yrði að snúa blaðinu við og fara í sókn. Hætta að sigra varnarsigra.

Hann sagði að honum hafi brugðið í sveitarstjórnarkosningunum í vor við niðurstöður og að bréfið sem fylgdi um að það hefði verið í lagi því þau væru enn stærst, hefði ekki verið í lagi.

„Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera stærsti flokkurinn, hann á alltaf að vera langstærsti flokkurinn,“ sagði Guðlaugur.

Mikill fjöldi er á fundinum í Valhöll.

Ekki „yfirstétt með yfirstétt“

Hann fór yfir sögu flokksins og hvað hann á að standa fyrir eins og stéttabarátta og að flokkurinn væri ekki „yfirstétt með yfirstétt“ eða „millistétt með millistétt“, heldur „Stétt með stétt“ og að flokkurinn ætti að vera það áfram.

Guðlaugur svaraði gagnrýni um að ríkisstjórnarsamstarfið myndi springa ef hann tekur við formannsembættinu og sagði það ekki rétt. Stjórnarsamstarfið snerist ekki um forystu flokksins heldur sé flokkurinn í stjórn, sama hver leiðir hann.

Guðlaugur fór eftir það yfir sín verk sem ólíkir ráðherrar og hvað hann stendur fyrir og að á þeim grunni byði hann sig fram sem formann Sjálfstæðisflokksins.

Gekk inn við mikið lófatak

Ragnheiður Ríkharðsdóttir fyrrverandi þingkona flokksins kynnti hann inn og sagði hann baráttumann fyrir gildum Sjálfstæðisflokksins og að hann, eins og aðrir, velti því fyrir sér af hverju flokkurinn er nú örflokkur en ekki fjöldahreyfing. Hún sagði hann vilja breyta því.

„Guðlaugur Þór sýnir sínar bestu hliðar þegar á móti blæs,“ sagði hún og kynnti hann inn við mikið lófatak.

Hættir ef hann tapar

Guðlaugur Þór boðaði til fundarins í morgun en mikið hefur verið rætt um framboðið í vikunni sem hann kallaði „verst geymda leyndamálið“. Hann sagði í viðtali í síðustu viku fjölda hafa skorað á sig að taka slaginn.

Bjarni Benediktsson sagði fyrr í dag í viðtali á Bylgjunni að ef hann tapi formannsslagnum þá hætti hann í stjórnmálum. Hann hefur verið formaður flokksins frá því 2009.