Guð­jón Óskars­son, rúm­lega sjö­tugur Reyk­víkingur hefur verið valinn Reyk­víkingur ársins. Í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg segir að hann hljóti þá nafn­bót fyrir starf sitt við að hreinsa gang­stéttir borgarinnar af tyggjók­lessum.

Guð­jón hófst handa við verkið í fyrra en hann missti vinnu sína við ferða­þjónustu vegna heims­far­aldurs kórónu­veirunnar. Síðan hefur hann unnið ötul­lega að því að hreinsa gang­stéttir og torg af tyggjói sem fólk hefur losað sig við á auð­veldan máta í stað þess að henda í rusla­fötur.

Heldur sér í formi

Í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg segir að Guð­jón sé orðinn sjö­tugur og að starfið auð­veldi honum að halda sér í formi því með því hreyfi hann sig í nokkra klukku­tíma á hverjum degi.

Tyggjók­lessu­hreinsunin átti fyrst í stað að vera tíu vikna átak og á­kvað Guð­jón að telja tyggjók­lessurnar sem hann hreinsaði upp. Hann er enn að telja og út­koman er sú að hann hefur hreinsað upp yfir 56 þúsund klessur.

„Ég nota vél sem leysir upp tyggjóið við 100 gráðu hita og með sér­stöku efni. Þetta er 100 prósent um­hverfis­væn að­ferð enda fór ég í á­takið vegna þess að mér þótti á­standið vera svo­lítið svaka­legt á sumum stöðum í Mið­borginni. Ég taldi til dæmis. tyggjók­lessurnar sem ég hreinsaði upp í Ingólfs­stræti á fyrsta degi. Þær voru nærri því 800 bara öðru megin götunnar,“ segir hann brosandi.

Guðjón hreinsaði meira en 800 tyggjóklessur fyrsta daginn sinn.
Mynd/Reykjavíkurborg

Krakkarnir taka honum vel

Hann segir að krakkar í bænum taki honum mjög vel. „Þegar þau sjá mig hrópa þau gjarnan. „Vei, tyggjókarlinn,“ segir Guð­jón.

„Ég tel að unga kyn­slóðin sé orðin mjög með­vituð um að henda ekki tyggjói á gang­stéttir heldur koma því í ruslið.“

Guð­jón er sam­kvæmt til­kynningunni búinn að fara nokkrar um­ferðir um Mið­borgina í tyggjó­hreinsuninni og fer, til dæmis, reglu­lega niður Skóla­vörðu­stíg. Hann segir að, því miður, séu alltaf komnar nýjar klessur þegar hann á leið um en að þeim fari þó fækkandi.

„Ætlun mín var alltaf að vekja at­hygli á þessu vanda­máli með á­takinu. Þetta er sóða­skapur og vont fyrir um­hverfið. Ég er um­hverfis­sinni og vona að fólk geri mig at­vinnu­lausan með því að hætta að henda tyggjói á göturnar. Ég hef hins vegar alltaf unnið og ætla ekkert að hætta því á meðan ég get,“ segir Guð­jón.

Guð­jón er á­nægður með þann heiður að vera valinn Reyk­víkingur ársins 2021. Hann er sá ellefti í röðinni sem hlýtur nafn­bótina. Í morgun opnaði hann Elliða­árnar í boði Dags B. Eggerts­sonar borgar­stjóra og Stanga­veiði­fé­lags Reykja­víkur í morgun. Veiðin var þó treg og Guð­jón fékk ekki lax á meðan hann reyndi sig við veiðarnar.