Guðfræðimenntaður maður sem Menntamálastofnun hafði neitað um leyfi til að titla sig kennara þarf að sætta sig við þá ákvörðun segirmennta- og menningarmálaráðuneytið.
Maðurinn sem lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og námi í kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri árið 2009 kærði ákvörðun Menntamálastofnunar til ráðuneytisins. Hann vildi fá útgefið leyfi til að nota starfsheitið kennari og vísaði samkvæmt umfjöllun ráðuneytisins í rétt sinn samkvæmt eldri lögum sem hann taldi enn til staðar.
Uppfyllti ekki skilyrði um almenna hæfni
Menntamálastofnun synjaði guðfræðingnum um útgáfu leyfisbréfs því hann uppfyllti ekki skilmála laga frá 2019 um almenna hæfni. Er þar að miða skuli við að umsækjandi hafi lokið að lágmarki 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræðigreinum.
Vísaði maðurinn til þess að á þeim tíma er hann hóf nám í guðfræði hafi nemendur getað bætt við sig 30 einingum í kennslu- og uppeldisfræðum til að öðlast starfsleyfi kennara í samræmi við eldri lög.
„Kærandi segist auk þess þekkja til nokkurra guðfræðinga sem hafi fengið útgefið leyfisbréf að loknu námi á svipuðum tíma og kærandi lauk sínu námi, til að nota starfsheitið kennari. Í viðbótargögnum tekur kærandi fram að hann telji sig hafa átt rétt til útgáfu leyfisbréfs til að nota starfsheitið kennari og þau réttindi verði ekki tekin af honum,“ segir í umfjöllun mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Nýju lögin gildi
Í úrskurði ráðuneytisins segir að nýju lögin séu þeim eldri fremri. „Hafi verið réttindi til staðar, standa þau ekki óhögguð eftir gildistöku nýrra laga sem gera auknar kröfur,“ segir ráðuneytið og staðfestir ákvörðun Menntamálastofnunar um að synja guðfræðingnum um að nota starfsheitið kennari við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.