Guðbjarni Eggertsson, hæstaréttarlögmaður hefur verið settur ríkissaksóknari til að veita endurupptökudómi umsögn í máli nr. 8/2022 vegna beiðni Erlu Bolladóttur til endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/1974.
Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að ráðuneytinu hafi borist erindi í april frá ríkissaksóknara, Sigríðar Friðjónsdóttur, um vanhæfi hennar en hún hafði einnig verið vanhæf í máli endurupptökunefndar nr. 7/2014 sem átti rætur að rekja til sama máls. Þær vanhæfisástæður sem lágu þá til grundvallar eru enn til staðar og koma einnig í veg fyrir aðkomu hennar að máli þessu.
Beiðni Erlu til endurupptökunefndar um endurupptöku á hennar þætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum var synjað í febrúar 2017 og varð hún þá sú eina af dómfelldu í málunum til að fá ekki endurupptöku á sínum þætti málsins.
Erla vildi ekki una synjun endurupptökunefndar. Hún stefndi í ríkinu og krafðist ógildingar á úrskurði endurupptökunefndar.
Í janúar á þessu ári féllst Héraðsdómur á þá kröfu hennar og í kjölfarið óskaði Erla aftur eftir endurupptöku málsins, nú fyrir endurupptökudómi. Það mál var þingfest í apríl og var ákæruvaldinu þá gefinn frestur til að skila greinargerð í málinu.
Málið tafðist hins vegar í dómsmálaráðuneytinu og rann frestur ríkisins til að skila greinargerð í málinu út án þess að settur yrði saksóknari í málið.
Nú fyrir stundu tilkynnti dómsmálaráðuneytið að Guðbjarni Eggertsson hæstaréttarlögmaður hefði verið settur saksóknari til að veita umsögn af hálfu ákæruvaldsins um kröfu Erlu til endurupptökudóms.
Guðbjarni er Hæstaréttarlögmaður og einn eigenda lögmannsstofunnar Lagastoðar. Á vef Lagastoðar kemur fram að Guðbjarni hafi sérhæft sig í verktaka- og vinnurétti og ágreiningsmálum tengdum fasteignaviðskiptum. Hann sé iðulega dómkvaddur sem matsmaður og hafi setið sem sérfróður meðdómsmaður í héraðsdómi og Landsrétti. Guðbjarni veiti meðal annars stéttarfélögum og félagasamtökum ráðgjöf. Hann er sagður hafa hefur mikla reynslu af málflutningi, bæði í einkamálum og sem verjandi í sakamálum.
Árið 1980 var Erla sakfelld í Hæstarétti fyrir rangar sakargiftir með því að hafa borið sakir á svokallaða Klúbbmenn, en þeir sátu í gæsluvarðhaldi í 105 daga, seint á áttunda áratug síðustu aldar grunaðir um aðild að hvarfi Geirfinns.
Auk Erlu hlutu fimm ungir menn dóma fyrir aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Þeir voru allir sýknaðir í Hæstarétti eftir að málin voru endurupptekin í Hæstarétti fyrir nokkrum árum.