Ant­hony Fauci, sér­fræðingi í smit­sjúk­dómum og helsta ráð­gjafa ríkis­stjórnar Donalds Trump í CO­VID-19-far­aldrinum, kom það alls ekki á ó­vart þegar Trump greindist með kórónu­veiruna. Trump greindist með veiruna í byrjun mánaðarins og dvaldi hann á sjúkra­húsi í þrjár nætur í kjöl­farið.

Fauci var í við­tali í frétta­skýringa­þættinum 60 Mínútur sem sýndur var á sjón­varps­stöð CBS í gær og þar var hann meðal annars spurður út í veikindi Trump.

„Ég hafði á­hyggjur af því að hann myndi veikjast þegar ég sá hann gjör­sam­lega ber­skjaldaðan innan um hóp fólks,“ sagði Fauci í við­talinu og átti við að Trump hafi verið grímu­laus innan um hóp fólks þar sem fáir notuðu and­lits­grímur og enn færri virtu fjar­lægðar­tak­markanir.

„Þegar ég sá þetta í sjón­varpinu hugsaði ég með mér: „Guð minn góður. Þetta er ekki gott.“ Svo kom í ljós að veiran hafði dreift sér stjórn­laust innan um þennan til­tekna hóp.“

Í frétt CNN kemur fram að Fauci hafi þarna vísað í við­burð í Rósa­garðinum svo­kallaða við Hvíta húsið þann 26. septem­ber síðast­liðinn. Á um­ræddum við­burði til­kynnti Donald Trump að hann hefði til­nefnt Amy Con­ey Bar­rett í stöðu dómara við Hæsta­rétt Banda­ríkjanna.