Juan Guaidó, sem lýsti sig janúar tímabundinn forseta Venesúela, lenti fyrir stuttu í höfuðborg Venesúela, Karakas, þrátt fyrir að vera í hættu á að vera handtekinn við komu. Hæstiréttur Venesúela dæmdi honum farbann í janúar sem hann braut á með því að yfirgefa landið í síðasta mánuði. 

Í færslu sem hann birti á Twitter, í tilefni af komu sinni til Venesúela, sagði hann að þau kæmu til landsins sem frjálsir borgarar og það geti enginn sagt þeim að þau séu það ekki.

„Við erum hér í Venesúela og munum halda áfram að fara fram á við,“ sagði Guaidó eftir að hann steig úr flugvélinni á flugvellinum.

Hvetur fólk til að mótmæla í dag og á morgun

Guaidó hefur verið á ferðalagi um Mið-Ameríku síðustu vikurnar. Hann hefur hvatt Venesúelabúa til að taka þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni sem eiga að fara fram í bæði dag og á morgun. Hann hefur kallað eftir því að forseti Venesúela, Nicolas Maduro, segi af sér.

Mennirnir tveir hafa tekist á um forsetaembættið í meira en mánuð. Fleiri en fimmtíu ríki hafa viðurkennt Guaidó sem forseta ríkisins á meðan önnur, eins og Kína, Kúba og Rússland, styðja enn við Maduro og segja hann eina lögmæta forseta Venesúela. Greint er frá á BBC.

Hér að neðan má sjá færslu sem blaðamaður Wall Street Journal deilir frá einum notenda Twitter af komu hans til Venesúela. Eins og má sjá var mikill fjöldi fólks sem tók á móti honum á flugvellinum.