Í gögnunum frá Airbnb, sem skattrannsóknarstjóri hefur aflað, eru upplýsingar sem vekja grun um stórfelld skattalagabrot íslenskra skattþegna. Alvarleiki brotanna veltur meðal annars á fjárhæðum sem ekki hafa verið gefnar upp á skattframtölum en fjárhæðirnar geta numið tugum milljóna króna.

Skattrannsóknarstjóri fékk í fyrra upplýsingar um 25,1 milljarðs greiðslur til íslenskra skattþegna frá Airbnb á Írlandi vegna áranna 2015 til 2018. Embættið hefur unnið að úrvinnslu gagnanna í hartnær ár en nú er rannsókn embættisins að taka á sig mynd.

„Það eru nokkur brot þarna sem eru alvarleg og stórfelld. Þau verða hjá okkur í rannsókn og geta mögulega endað fyrir dómstólum,“ segir Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknarstjóri.

Fjöldi mála sem verða tekin til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra er ekki ljós, en þau verða nokkur, segir Theodóra. Upplýsingar um aðra aðila verða sendar skatteftirliti, og getur þeim málum lokið með endurákvörðun skatta ef útleigutekjur reynast vantaldar.

„Hvað alvarlegri málin snertir kemur auk endurákvörðunar til beitingar sektarviðurlaga ef grunur reynist réttur. Hluta málanna gæti hvað það varðar lokið með sekt eftir rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra,“ segir Theodóra en skattrannsóknarstjóri hefur heimild til að beita sektum allt að 100 milljónum króna.

„Önnur og alvarlegustu málin færu áfram til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og síðan í dómsmeðferð og lýkur þá mögulega með sekt og fangelsisrefsingu.“

Skattrannsóknarstjóri óskaði eftir gögnunum með bréfi í lok árs 2018 en gögnin bárust ekki fyrr en í ágúst 2020. Vinna við frekari greiningu gagnanna hófst samstundis en önnur verkefni embættisins hafa valdið töfum á rannsókninni.

„Um mikið magn gagna er að ræða og hefur verkefnið þurft að þoka fyrir öðrum verkefnum hjá skattrannsóknarstjóra,“ segir Theodóra, spurð um hvort embættið hafi nægilegan mannafla í verkefnið.

Í febrúar 2018 áætlaði Hagstofan að heildarfjöldi gistinátta á öllum tegundum gististaða hafi árið 2017 verið um 10.500.000, þar af hafi gistinætur á stöðum sem skipta við Airbnb verið um 1.700.000 að verðmæti 14,7 milljarðar. Mun það hafa verið aukning á tímabilinu en gistinætur á stöðum sem skipta við Airbnb voru um 11,8 milljarðar árið 2016