Frystitogaranum Baldvini Njálssyni GK 400 var siglt frá Ísafjarðardjúpi til Hafnarfjarðar í nótt eftir að skipverji veiktist skyndilega í fyrradag og sýndi einkenni sem bentu til COVID-19 smits.

Skipið, sem er gert út af Nesfiski, kom að bryggju í Hafnarfirði í morgun og fór skipverjinn beinustu leið í sýnatöku. Neikvæð niðurstaða fékkst úr sýnatökunni nú skömmu eftir hádegi og er áhöfnin á leið frá landi.

Þetta staðfestir Þorsteinn Eyjólfsson, skipstjóri Baldvins, í samtali við Fréttablaðið en RÚV greindi fyrst frá málinu.

Hann bætir við að öll áhöfnin hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr skimun sem fór fram á sunnudag en skipið hélt til veiða daginn eftir.

Ákveðið var að sigla til Hafnarfjarðar í stað þess að leggjast að bryggju á Ísafirði þar sem talið var að erfið færð gæti tafið flutning á sýninu til Reykjavíkur.