Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu er með mikinn við­búnað á Mið­vangi í Hafnar­firði og eru lög­reglu­bílar, sjúkra­bílar og sér­sveitar­bílar á vett­vangi. RÚV greinir frá því að við­búnaðurinn sé til kominn vegna gruns um skot­á­rás.

Blaðamaður Fréttablaðsins er á svæðinu. Búið er að loka fyrir umferð inn Miðvang og fólki og íbúum meinað aðgang að svæðinu. Á svæðinu eru fjórir lögreglubílar, fjögur mótorhjól, tveir sjúkrabílar og sérsveitarbíll.

Maður á svölum með byssu

Lögregluþjónn sagði við Fréttablaðið að karlmaður í fjölbýlishúsi bak við Nettó hafi skotið úr vopni frá svölum sínum og hæft bíl sem hafði verið lagt fyrir aftan verslunina. Verið er að vinna að því að ræða við manninn.

„Þetta er ekki öruggt,“ sagði lögregluþjónninn við Fréttablaðið aðspurður hvort búið væri að tryggja svæðið.

Lögregla og sérsveit eru með mikinn viðbúnað á vettvangi.
Mynd/Anton Brink

Leikskólabörnin ekki í hættu að sögn lögreglu

Frétta­blaðið greindi frá því í morgun að lög­regla hefði lokað götunni sem liggur að verslun Nettó í Hafnar­firði. Þá væri sjúkra­bíll innar í götunni en þar er stað­settur leik­skóli. Í frétt RÚV segir að leik­skólanum Víði­völlum hafi verið lokað og for­eldrum til­kynnt að þau börn sem mætt eru í skólann séu örugg. Hefur leiðum til og frá leik­skólanum verði lokað.

Lögregluþjónn sagði að leikskólabörnin væru ekki í hættu. Lögreglan væri að gera ráðstafanir svo engin hætta skapist fyrir þau.

Skúli Jóns­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn og stöðvar­stjóri á lög­reglu­stöðinni í Hafnar­firði, sagði við Frétta­blaðið í morgun að von væri á til­kynningu vegna málsins.