Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum í stórfelldu fíkniefnamáli. Einn er enn í afplánun vegna fyrri dóms.

Lagt var hald á tugi kílóa fíkniefna við rannsókn málsins, tæplega 100 kíló af kókaíni sem var falið í vörusendingu á leið til landsins.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Fréttablaðið að hann búist að rannsókn ljúki í þessum mánuði. Þá færist málið yfir til saksóknara.

Einn fjórmenninganna sem er í gæsluvarðhaldi.
Fréttablaðið/Valli

Vinna með Hollendingum


Rann­sókn málsins hefur staðið yfir undan­farna mánuði, en að henni koma em­bætti lög­reglu­ á höfuð­borgar­svæðinu, á Suður­nesjum, ríkis­lög­reglu­stjóra og héraðs­sak­sóknara. Sömuleiðis vinnur lögreglan með tollyfirvöldum í Hollandi, en sendingin kom þaðan.

„Við vinnum náið með tollyfirvöldum í Hollandi. Samstarfið gengur vel og ég býst við að rannsókn ljúki í þessum mánuði en við höfum tólf vikur frá handtöku til að gefa út ákæru,“ útskýrir Grímur.

Málið er talið tengjast skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi og mögulega peningaþvætti.

„Já, það er grunur um peningaþvætti og í svona málum er slíkt alltaf rannsakað,“ segir Grímur.

Grímur Grímsson hjá miðlægri deild lögreglunnar.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason