Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður manns sem er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka, segir að grunsemdir lögreglu um hryðjuverk virðist ekki hafa orðið að veruleika fyrr en eftir að maðurinn hafði setið í viku gæsluvarðhaldi og var sleppt.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins mun maðurinn hafa haft samband við vin sinn að loknu gæsluvarðhaldinu. Líklegt er að lögreglan hafi fylgst með þeim samskiptum.

„Ég get staðfest að grunsemdir um hryðjuverk komu ekki upp strax eftir að hann var handtekinn,“ segir Ómar Örn. Lögmaðurinn segir skjólstæðing sinn í einangrun.

Rannsókn sé á frumstigi en hann neiti að hafa verið með hryðjuverk í pípunum.

Það verður skýrslutaka á næstu dögum og þá ættu hlutir að skýrast betur. Lögreglan er að rannsaka gögnin ég hef ekki fengið nein gögn enn, það er bara búið að yfirheyra hann einu sinni og sú yfirheyrsla var ekki löng,“ segir Ómar Örn. Skjólstæðingur lögmannsins var handtekinn á þriðjudegi fyrir tveimur vikum.

Honum var haldið föngnum í varðhaldi í viku, sleppt lausum og handtekinn degi síðar. „Ég hef mínar efasemdir um að hinir tveir sem voru handteknir en var sleppt aftur hafi nokkrar tengingar við málið,“ segir Ómar Örn.

Að hans sögn eru mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldinu vinir. Þeir eru báðir á þrítugsaldri. Lögregla hefur sagt að mikið magn af byssukúlum hafi fundist við húsleit auk þess sem prenta hafi átt vopn með þrívíddarprentara. Handtökur fóru fram á tveimur stöðum.