Afgönsk kona, sem handtekin var í íbúð í Hafnarfirði í morgun, hefur verið látin laus úr haldi lögreglu. Það staðfestir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið. 

Lögregla fór í íbúðina fyrir tilstilli barnaverndarnefndar líkt og Fréttablaðið greindi fyrst frá í dag en með konunni voru fimm börn.

Grunsemdir voru uppi um að konan væri ekki móðir þeirra en börnin eru á aldrinum 10 til 17 ára. Fjögur barnanna eru komin í umsjá barnaverndaryfirvalda. Konan var handtekin vegna gruns um brot á útlendingalögum og var hún yfirheyrð seinni part dags og loks látin laus um kvöldmatarleytið.

Lífssýni voru tekin á staðnum til að skera úr um tengsl konunnar og barnanna en Skúli segir að það muni taka nokkrar vikur að fá niðurstöður úr þeim.