Rétt fyrir hálffjögur í nótt var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 112. Kona sem var að ganga með hundinn sinn sá mann sem hljóp í burtu og keyrði svo á brott þegar hann varð var við hana. Hann skildi eftir lykla og fjarstýringu. Fótspor hans voru rakin og svo virðist sem hann hafi verið að skoða í bifreiðar í hverfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Lögreglan stöðvaði líka alls sex ökumenn sem óku undir áhrifum í gærkvöldi. Einn þeirra er auk þess grunaður um að aka ítrekað án réttindi og sölu og dreifingu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu. Annar hefur aldrei öðlast ökuréttindi og er einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Hann reyndist líka á ótryggðri bifreið, svo skráningarnúmerin voru klippt af. Tveir ökumannanna eru grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda og vörslu fíkniefna, einn um vörslu fíkniefna auk vímuakstursins og sá sjötti hefur ekið ítrekað án ökuréttinda, auk þess að vera í vímu undir stýri.

Enn einn ökumaðurinn sem var stöðvaður reyndist líka aldrei hafa öðlast ökuréttindi og hefur áður verið stöðvaður fyrir sama brot.

Milli hálfþrjú og hálffjögur voru svo eigendur níu ökutækja sektaðir fyrir stöðubrot.