Félag grunnskólakennara hefur slitið kjaraviðræðum sínum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Kjarasamningur rennur út um næstu áramót.

Fram kemur í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að krafa kennara um styttingu vinnutíma auki enn á þann umönnunarvanda sem grunnskólar standi nú þegar frammi fyrir og leiði til mikils kostnaðarauka.

Í tilkynningunni segir að tilboð Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi byggt á grunni lífskjarasamningsins og sé í samræmi við þá samninga sem gerðir hafi verið við aðra viðsemjendur.

Með tilboðinu eigi laun kennara að hækka um 25.000 kr. frá 1. janúar 2022 og vinnutími styttist með sama hætti og þegar hefur verið samið um við aðra opinbera starfsmenn í dagvinnu. Kennarar geri kröfu um að stytta kennslu hvers kennara um eina viku.

„Ljóst er að slíkt myndi auka enn á þann mönnunarvanda sem grunnskólar standa nú þegar frammi fyrir og leiða til mikils kostnaðarauka.“