Félagar í Félagi grunnskólakennara hafa samþykkt nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Lauk atkvæðagreiðslunni klukkan ellefu í dag og greiddu 73,2% kjósenda atkvæði með samningnum. 25,1% greiddu atkvæði gegn honum og 1,7% skiluðu inn auðu.

Á kjörskrá voru 5.305 og var kjörsókn 68,65%. Frá þessu er greint á vef Kennarasambands Íslands.

Að sögn forsvarsmanna sambandsins er nýi kjarasamningurinn í samræmi við lífskjarasamninga sem gerðir hafa verið við önnur stéttarfélög.

Samningurinn gildir frá 1. september 2020 til ársloka 2021 og fór undirritun hans fram í húsakynnum ríkissáttasemjara þann 7. október síðastliðinn. Hafa kjaraviðræður farið að miklu leyti fram á fjarfundum vegna faraldursins.

Fram að þessu höfðu grunnskólakennarar verið kjarasamningslausir í meira en ár.