Alls eru 16,3 prósent grunnskólanemenda á Íslandi með formlegar greiningar í samanburði við aðeins 4,44 prósent að meðaltali í 30 Evrópulöndum.

Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni, þingmanni Miðflokks, um námsárangur pilta og stúlkna í skólakerfinu.

Nemendum með sérþarfir, hvort sem það er í leik- eða grunnskóla, hefur fjölgað mikið samkvæmt svari ráðherra. Árið 2010 voru um 1.200 börn í leikskóla sem nutu sérstaks stuðnings en þau voru yfir tvö þúsund árið 2019.

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, hefur ekki skýringar á fjölguninni á reiðum höndum, en segir að hún sé sjálfsagt víðtæk og hafi marga anga.

Í grunnskóla er fjölgunin einnig mikil. Fór úr tæpum fimm þúsund nemum í sjö þúsund á rúmum áratug. Stuðningur við nemendur byggist á athugunum, greiningu og ráðgjöf starfsfólks skóla og skólaþjónustu sveitarfélaga og annarra fagaðila sem koma að málefnum viðkomandi nemenda.

Þeir sem leggja aðra í einelti hugsa einnig meira um að fremja sjálfsvíg heldur en fórnarlömb þeirra

Lilja tiltekur fjölmargar rannsóknir í svarinu. Meðal annars kemur fram að íslenskum grunnskólanemum líði almennt vel í skólanum. Þó séu bæði þau sem eru gerendur og þolendur í eineltismálum sem helst hugsa um að svipta sig lífi. Þeir sem leggja aðra í einelti hugsa einnig meira um að fremja sjálfsvíg heldur en fórnarlömb þeirra, samkvæmt alþjóðlegri könnun HBSC um heilsu og lífskjör grunnskólanemenda.

Rannsóknin Ungt fólk 2020, sem fjallaði um hagi og líðan framhaldsskólanema, sýnir að andlegri líðan nemenda í framhaldsskólum hefur hrakað verulega á liðnum árum, einkum líðan stúlkna.

Aðeins 46 prósent nemenda töldu andlega heilsu sína góða

Árin 2004–2010 töldu 76 til 78 prósent nemenda í framhaldsskóla andlega heilsu sína góða, en aðeins voru 46 prósent sem töldu slíkt hið sama á síðasta ári.

Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um menntastefnu til ársins 2030. Í svari Lilju segir að í henni sé lögð áhersla á snemmbæran stuðning og forvarnir sem fela í sér að gripið sé til aðgerða annaðhvort snemma í lífi barns eða um leið og upp koma aðstæður þar sem ljóst er að nemandi þarfnast stuðnings af einhverju tagi. Stuðningurinn getur beinst að nemandanum sjálfum eða umhverfi hans.