Um 57 prósent stúlkna í 10. bekk á Íslandi hafa verið beðin um að senda af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir í gegnum netið. Þriðjungur stúlkna hefur sent slíkar myndir. Strákar eru einnig beðnir um ögrandi myndir eða nektarmyndir í gegnum netið en þó í minna mæli. Alls hafa 24 prósent stráka í 10. bekk verið beðin um að senda slíka mynd og 15 prósent hafa gert slíkt.

„Þetta eru sláandi tölur,“ segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, en hún mun ásamt Margréti Lilju Guðmundsdóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknum og greiningu, kynna þessar tölur á hádegisfyrirlestrinum Klám og „sexting“: Umfang kynferðislegra myndsendinga meðal barna.

Fyrirlesturinn fer fram á rannsokn.is og hefst í hádeginu.

Kolbrún bendir á að í fyrirlestri Ólafar Ástu Farestveit, forstöðumanns Barnahúss, á kynningarfundi Ríkislögreglustjóra fyrir skemmstu hafi komið fram að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 15 börn undir 15 ára aldri komið í Barnahús eftir að hafa sent kynferðislegar sjálfsmyndir. Þau voru innan við tíu allt árið í fyrra.

„Það segir okkur að þetta er að aukast ofboðslega hratt. Börn eru stundum þvinguð til að senda slíkar myndir. Þau kynnast þá oft gerendum á netinu og þetta er staða sem við höfum áhyggjur af. Það er eitthvað í loftinu og það er eins og eitthvað sé að breytast varðandi viðhorf til þessa mála,“ segir Kolbrún.

Fram kemur í tölunum að ótrúlegur fjöldi hefur sent ögrandi mynd eða nektarmynd gegn greiðslu. Stelpur jafnt sem strákar. Alls segjast 2,2 prósent stráka í 10. bekk hafa sent slíka mynd gegn greiðslu en 3,8 prósent stúlkna á sama aldri.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, er verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur.

„Þetta er orðið eitthvert nýtt norm. Þeim finnst þetta ekkert tiltökumál,“ segir Kolbrún. Hún bendir á að börn séu ekkert endilega að átta sig á hættunni sem þau séu í og það sé komið að því að foreldrar stígi inn í og veiti aðhald og smá viðspyrnu.

„Þegar krakkar eru komnir með snjalltæki í hendurnar getur fullorðinn aðili haft aðgang að þeim. Við þurfum strax að setja reglur og venja þau við að fylgjast betur með. Það er til dæmis ástæða fyrir því að það eru aldurstakmörk á samfélagsmiðlum.

Forsjáraðilar verða að þora að fara eftir viðmiðunum og vera vakandi fyrir því sem börnin þeirra eru að gera á netinu og hverja þau eru að vingast við.“

Hún segir að það geti verið mikið áfall fyrir forsjáraðila að komast að því að kynferðislegar myndir af barninu þeirra séu komnar í sölu og dreifingu á netinu.

„Það er einnig þungur baggi að bera fyrir unga manneskju þegar brotið er á henni á þennan hátt og því mikilvægt að veita bæði stuðning en einnig að sinna forvörnum eins og hægt er. Við þurfum að stíga niður fæti. Standa öll saman og vera leiðinlegu foreldrarnir. Stundum þarf að gera það.“