Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir það mikil vonbrigði að Efling hafi slitið kjaraviðræðum sínum við samtökin. Búast má við því að félagið grípi til verkfallsaðgerða.
„Kjaraviðræður samtaka atvinnulífsins við félögin í kringum landið hafa gengið mjög vel. Við höfum náð að undirrita kjarasamninga við öll stærstu samflotin og öll félög Starfsgreinasambandsins hringinn í kringum landið, fyrir utan Eflingu, sem kaus að vera ekki hluti af því samfloti,“ segir Halldór Benjamín og að auk þeirra samninga sem hafa verið undirritaðir við Verslunarmenn og aðra myndi hópurinn um 80 þúsund manns sem hafi undirritað kjarasamninga og samþykkt þá.
Halldór segir það merki um að mikil sátt ríki um kjarasamninginn.
„Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með það að Efling vilji skera sig úr með það varðar og hafi í dag lýst yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins og það sé hafinn verkfallsundirbúningur af þeirra hálfu. Það tel ég afskaplega misráðið og vonda ákvörðun af hálfu Sólveigar Önnu, formanns félagsins,“ segir Halldór.
Hann segir að á fundi hafi þau rætt tilboð Eflingar og að SA hafi verið skýrt með það að þau gætu ekki gengið að þeim samningi. Þeirra trúnaður ríki við þau félög sem þau hafa þegar samið við.
„Ef við myndum snúa okkur við og semja um eitthvað allt annað við Eflingu myndu allir þeir kjarasamningar sem við höfum undirritað og hafa verið samþykktir af félagsmönnum þessara stéttarfélaga sem við höfum samið við losna upp og við þyrftum að fara aftur á nýjan leik,“ segir Halldór og að það sé staða sem enginn sé tilbúinn til að vera í.
Hann segist efast um það að meirihluti Eflingarfólks vilji afsala sér afturvirkni kjarasamningsins til nóvember með því að fara í verkfallsaðgerðir en SA hafði áður sagt að ef samningar verði ekki undirritaðir 11. janúar eða fyrr falli afturvirkni samnings niður.
„Með því að slíta viðræðum og hefja verkfallsaðgerðir er Sólveig Anna, fyrir hönd Eflingar, að gera Samtökum atvinnulífsins mjög erfitt um vik að efna möguleika um afturvirkni samnings,“ segir Halldór.
Hækkun um 50 til 80 þúsund
Spurður um tilboð Eflingar og það sem SA hefur boðið segir hann bilið á milli tilboðanna mjög mikið og að kostnaður við tilboð Eflingar sé miklu meiri. Hækkanir séu á bilinu 50 til 80 þúsund í skammtímasamningi og bendir á að á þriggja ára tímabili lífskjarasamnings hafi hækkanir verið samanlagt 90 þúsund.
Spurður um kostnað verkfallsaðgerða á móti þeim kostnaði sem Efling leggur fram segir Halldór Benjamín að staðan sé metin hverju sinni. Hann segir að hann gruni að það hafi alltaf verið ætlun Sólveigar Önnu að fara í verkfall.
„Það sem ég óttast er að fórnarlömb þess verði hinir almennu félagsmenn Eflingar sem ég neita að trúa að styðji aðgerðir af þessum toga.“
Hann segir að engar almennilegar viðræður hafi átt sér stað á milli félaganna og að viðræðurnar sem hafi átt sér stað eigi ekkert sameiginlegt við viðræður SA við hin félögin.
„Trúnaður okkar gagnvart þessu fólki sem við höfum samið við er innmúraður og ófrávíkjanlegur og verður aldrei dregin í efa,“ segir Halldór og ítrekar að það sé hlutverk SA að verja þá línu sem hafi verið dregin og að þau muni ekki brjóta þann trúnað.