Myndband, sem er í mikilli dreifingu og sýnir innrás fjölda grímuklæddra manna í Bankastræti Club síðastliðinn fimmtudag, er talið koma úr gagnagrunni lögreglunnar.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að þessar grunsemdir séu til staðar í samtali við Fréttablaðið og segir að málið sé til skoðunnar. „Við lítum þetta mál mjög alvarlegum augum, ef þetta er eins og virðist blasa við þá er þetta trúnaðarbrestur,“ segir Grímur.

Þá segir hann að ef þessi skoðun muni benda til þess að myndbandið komi úr röðum lögreglunnar verði það sent til Héraðssaksóknara. Um væri að ræða brot í opinberu starfi.

Grímur getur ekki tjáð sig um hvort einhver sé grunaður í málinu, en segir að grunsemdir hafi vaknað um að myndbandinu hefði verið lekið frá lögreglunni þegar það fór í mikla dreifingu í gærkvöldi.

Í mynd­bandinu sem um ræðir sést hvernig fjöl­margir grímu­klæddir ein­staklingar ráðast inn í VIP-her­bergið á Banka­stræti Club og hlaupa að þremur ein­stak­lingnum.

Greint hefur verið frá því í fjöl­miðlum að tæplega þrjátíu manns hafi ráðist á þrjá menn um tví­tugt og stungið þá marg­sinnis.