Mikið var um að vera hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu í gær­kvöldi og í nótt en alls voru 100 mál skráð í dag­bók lög­reglu. Mikið var um há­vaða­til­kynningar og annað tengt ölvun að sögn lög­reglu.

Á þriðja tímanum í nótt var öku­maður stöðvaður á Reykja­nes­braut þar sem hann var grunaður um akstur undir á­hrifum fíkni­efna en sýni sem hann gaf reyndist vera nei­kvætt. Tveir far­þegar voru í bílnum og var verið að skutla þeim í Hafnar­fjörð.

Öku­maðurinn er grunaður um að stunda leigu­akstur án leyfis, sölu á­fengis, og fleira. Far­angurs­geymsla bílsins reyndist við leit lög­reglu vera full af á­fengi og var það hald­lagt fyrir rann­sókn málsins.

Þá var til­kynnt um líkams­á­rás í Grafar­holti á mið­nætti en þegar lög­regla kom á vett­vang voru á­rása­r­aðilar farnir. Sá sem varð fyrir á­rásinni hlaut skurð á hendi og fékk að­hlynningu í sjúkra­bíl.

Eftirlit með ökumönnum

Þó nokkrir öku­menn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir á­hrifum á­fengis og/eða fíkni­efna og akstur án gildra öku­réttinda.

Lög­regla við hafði eftilit með ölvunar­akstri í Kópa­vogi í gær­kvöldi þar sem um það bil 20 bif­reiðar voru stöðvaðar og var þar einn grunaður um ölvun við akstur.

Síðar um kvöldið var eftir­lit með á­standi öku­manna og öku­tækja á Bú­staðar­vegi og var þar um að ræða um það bil 200 öku­menn. Einn er grunaður um ölvun við akstur, einn blés undir refsi­mörkum og einn reyndist vera réttinda­laus.