Landsréttur staðfesti á dögunum úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli manns sem er grunaður um fjölda brota, líkt og nauðgun og líkamsárásir. Maðurinn mun sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 27. september.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms eiga þessi meintu brot að hafa átt sér stað í mars, apríl og maí á þessu ári. Eiginkona mannsins er brotaþoli í þremur af fimm málunum, en hann er jafnframt grunaður um þrjár líkamsárásir sem áttu sér stað sömu nótt.

Fram kemur að maðurinn hafi neitað sök í öllum málunum nema einu, en það er umferðarlagabrot.

Ógeðfelldar lýsingar á nauðgun

Maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað eiginkonu sinni í bifreið. Í lýsingu úrskurðar Héraðsdóms er atvikinu lýst á þann veg að maðurinn hafi „[ógnað] henni með hníf, settist yfir hana og lagði sætið aftur, skipaði henni að klæða sig úr að neðan, hótaði að setja fíkniefni upp í leggöngin á henni og skera úr henni augun auk þess sem hann hótaði að skaða sjálfan sig og hafði svo við hana samræði.“

Því atviki er lýst nánar í úrskurðinum, en lögreglu var gert viðvart um málið þegar vegfarandi kom að brotaþolanum, sem hafi sjáanlega verið í miklu uppnámi. Skýrsla var tekin af vitninu sem sagði brotaþola hafi verið „hrædda og kjökrandi“ Auk þess segir að vegfarandinn og önnur vitni hafi gengið til hennar, en þá hafi maðurinn staðið yfir henni öskrandi.

Konan hafi beðið þau að hringja í lögregluna á meðan maðurinn var vopnaður hníf. Hún hafi sagt vitninu að maðurinn hafi nauðgað sér og tekið símann sinn.

Hafi reynt að tosa hana aftur inn í bíllinn

Maðurinn er grunaður um önnur brot í garð eiginkonu sinnar. Til að mynda er hann grunaður um að hafa beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung í bíl „[þrýsta] henni upp að bílhurðinni, tosaði í kjól hennar og klóraði hana á bringuna og náði þannig af henni mununum og eftir að hún yfirgaf bifreiðina reyndi hann að toga og ýta henni aftur inn í bifreiðina,“

Vegna þess hafi konan hlotið mar, yfirborðsáverka á hálsi, brjóstkassa og bakverki. Auk þess á hann að hafa tekið farsíma og kortaveski hennar í burtu.

Á að hafa kastað slökkvitæki og bitið í bak

Líkt og áður segir er maðurinn jafnframt grunaður um að hafa framið þrjár líkamsárásir sömu nótt. Í þeirri fyrstu hafi hann slegið einstakling ítrekað í höfuð, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og bólgu bak við vinstra eyra og dreifð vöðvaeymsli.

Í annari hafi hann slegið einstakling með krepptum hnefa í andlit, með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu í andliti og þreifieymsli á vinstra kjálkahorni.

Og í þeirri þriðju hafi hann slegið einstakling í höfuð, kastað slökkvitæki í áttina að honum og bitið hann í bakið með þeim afleiðingum að einstaklingurinn hlaut blóðhlaupið mar á hægra herðablaði og yfirborðsáverka á húð.