Bandarískur karlmaður, Lawrence Rudolph, hefur verið ákærður fyrir morð á eiginkonu sinni, fimm árum eftir að hún lést af í veiðiferð í Afríku árið 2016.
New York Times greinir frá þessu.
Lawrence, sem er tannlæknir að mennt, var handtekinn í desember síðastliðnum eftir umfangsmikla rannsókn lögreglu. Hjónin voru stödd í Sambíu í október 2016 þegar eiginkonan, Bianca, varð fyrir skoti úr haglabyssu. Lawrence sagði lögreglu að hún hafi verið að ganga frá byssunni þegar skot hljóp skyndilega úr henni og í vinstra brjóst hennar.
Rannsókn FBI leiddi hins vegar í ljós að Bianca hafði verið skotin úr 1-2 metra fjarlægð og því talið afar ólíklegt að hún hafi haldið á byssunni þegar skotið hljóp úr henni. Þá telur lögregla nær útilokað að hún hafi verið fær um að skjóta sig í ljósi þess hversu stór byssan var.
Í frétt New York Times kemur fram að það hafi vakið grunsemdir lögreglu að Lawrence hafi lagt ríka áherslu á að lík eiginkonu hans yrði brennt sem fyrst eftir andlát hennar. Útskýrði hann að það væri erfitt að flytja líkamsleifar hennar heim.
Hann lét þess þó ekki getið að hann hafði sjálfur ítrekað flutt dýr sem hann hafði skotið í Afríku í heilu lagi heim til Bandaríkjanna án mikilla vandkvæða.
Rannsókn málsins leiddi til þess að Lawrence hefur nú verið ákærður. Saksóknarar telja að hann hafi viljað losna við eiginkonu sína og nefna að hann hafi átt í ástarsambandi við samstarfskonu sína á tannlæknastofu sinni í Arizona. Þá hafði hann gert breytingar á líftryggingu fjölskyldunnar sem gerðu það að verkum að hann fékk hærri upphæð greidda ef eiginkona hans létist af slysförum.
Lawrence neitaði sök þegar málið var tekið fyrir á dögunum.