Banda­rískur karl­maður, Lawrence Ru­dolph, hefur verið á­kærður fyrir morð á eigin­konu sinni, fimm árum eftir að hún lést af í veiði­ferð í Afríku árið 2016.

New York Times greinir frá þessu.

Lawrence, sem er tann­læknir að mennt, var hand­tekinn í desember síðast­liðnum eftir um­fangs­mikla rann­sókn lög­reglu. Hjónin voru stödd í Sam­bíu í októ­ber 2016 þegar eigin­konan, Bian­ca, varð fyrir skoti úr hagla­byssu. Lawrence sagði lög­reglu að hún hafi verið að ganga frá byssunni þegar skot hljóp skyndi­lega úr henni og í vinstra brjóst hennar.

Rann­sókn FBI leiddi hins vegar í ljós að Bian­ca hafði verið skotin úr 1-2 metra fjar­lægð og því talið afar ó­lík­legt að hún hafi haldið á byssunni þegar skotið hljóp úr henni. Þá telur lög­regla nær úti­lokað að hún hafi verið fær um að skjóta sig í ljósi þess hversu stór byssan var.

Í frétt New York Times kemur fram að það hafi vakið grun­semdir lög­reglu að Lawrence hafi lagt ríka á­herslu á að lík eigin­konu hans yrði brennt sem fyrst eftir and­lát hennar. Út­skýrði hann að það væri erfitt að flytja líkams­leifar hennar heim.

Hann lét þess þó ekki getið að hann hafði sjálfur í­trekað flutt dýr sem hann hafði skotið í Afríku í heilu lagi heim til Banda­ríkjanna án mikilla vand­kvæða.

Rann­sókn málsins leiddi til þess að Lawrence hefur nú verið á­kærður. Sak­sóknarar telja að hann hafi viljað losna við eigin­konu sína og nefna að hann hafi átt í ástar­sam­bandi við sam­starfs­konu sína á tann­lækna­stofu sinni í Arizona. Þá hafði hann gert breytingar á líf­tryggingu fjöl­skyldunnar sem gerðu það að verkum að hann fékk hærri upp­hæð greidda ef eigin­kona hans létist af slys­förum.

Lawrence neitaði sök þegar málið var tekið fyrir á dögunum.