Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að karlmaður, sem grunaður er um ofbeldi gegn fjórum dætur sínum og ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, skuli sæta gæsluvarðhaldi allt til 21. desember næstkomandi. Úrskurður Landsréttar féll í gær.

Barnavernd lagði fram kæru á hendur manninum í ágúst 2020 vegna gruns um að hann hefði beitt dætur sínar andlegu og líkamlegu ofbeldi. Var hann grunaður um að hafa meðal annars slegið þær með belti, skóm og fleiru.

Fólskulegt ofbeldi

Í kæru barnaverndar, sem vísað var til í úrskurði héraðsdóms í vikunni, kom fram að dætur mannsins hefðu lýst því faðir þeirra væri mjög oft reiður, fari með þær inni í herbergi þar sem hann lokar og læsir hurðinni, dragi niður gluggatjöldin og lemji þær þar til þær hætta að gráta. Þá hafi þær borið um að móðir þeirra reyni stundum að hjálpa þeim en þá lemji hann hana líka. Sögðu stúlkurnar að hann lemji oft móður þeirra og þau rífist mikið.

Í apríl síðastliðnum kærði ein stúlknanna hótanir sem henni höfðu borist frá föður sínum í gegnum messenger, bæði í formi skilaboða og með símtölum. Umrædd stúlka og systur hennar hafa verið í fóstri síðan í ágúst 2020 og hafa lögreglu ítrekað borist upplýsingar um áreiti föðurins gagnvart stúlkunum undanfarna mánuði.

Lét sér ekki segjast

Í júlí síðastliðnum var manninum, með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, gert að sæta nálgunarbanni allt til 30. september. Ákæra gegn honum var svo gefin út í september vegna stórfelldra brota í nánu sambandi gegn dætrunum og fyrrum eiginkonu sinni. Þá var honum gefið að sök að hafa brotið gegn stúlkunum með umsáturseinelti, móðgandi og smánandi skilaboðum og hótunum eftir að þær voru vistaðar utan heimilis.

Manninum var þann 27. september síðastliðinn gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum. Maðurinn virðist ekki hafa látið sér segjast því lögreglu bárust tilkynningar þann 20. september síðastliðinn og 25. október um brot mannsins gegn nálgunarbanni. Fór svo að maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald 26. október þar sem hann hefur setið síðan.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum taldi að maðurinn héldi brotum sínum áfram þrátt fyrir umrætt nálgunarbann. Undir það tóku bæði Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur og mun maðurinn því sæta gæsluvarðhaldi allt til 21. desember næstkomandi.