Karl­maður á sex­tugs­aldri var á þriðju­dag út­skurðaður í nálgunar­bann gagn­vart konu og barn­ungri dóttur hennar vegna gruns um kyn­ferðis- og of­beldis­brot, hótanir, á­reiti og ó­næði. Hann hefur einnig verið á­kærður fyrir kyn­ferðis­brot gagn­vart fjórum fötluðum konum.

Um­rætt mál er tví­þætt; annars vegar er maðurinn grunaður um brot gegn mæðgunum og hins vegar gagn­vart konunum fjórum. Lands­réttur stað­festi þannig sex mánaða nálgunar­bann síðast­liðinn þriðju­dag en lög­regla telur manninn vera undir rök­studdum grun um að hafa brotið gegn mæðgunum en auk kyn­ferðis- og of­beldis­brota er hann sagður hafa of­sótt mæðgurnar.

Lögregla kölluð til átta sinnum

Fram kemur í nálgunar­banns­úr­skurðinum að konan hafi óskað eftir að­stoð lög­reglu átta sinnum síðast­liðna tvo til þrjá mánuði, hann í­trekað ó­náðað hana með sím­tölum og smá­skila­boðum og komið að heimili hennar, barið á glugga og unnið eigna­spjöll á úti­dyra­hurð hennar, svo fátt eitt sé nefnt.

Þá greinir RÚV frá því að maðurinn hafi verið á­kærður fyrir kyn­ferðis­brot gagn­vart fjórum fötluðum konum. Honum er gefið að sök að hafa brotið fjórum sinnum á einni konunni frá því í lok árs 2014 til byrjun árs 2015, þar af tví­vegis á gólfi salernis við Holta­garða. Einnig er hann á­kærður fyrir að hafa haft af konunni tólf þúsund krónur sem hann lét hana taka út úr hrað­banka.

Hótaði að drepa sig ef hann fengi ekki nektarmyndir

Maðurinn er einnig á­kærður fyrir brot gagn­vart annarri konu, sem er þroska­hömluð sam­kvæmt á­kæru. Hann er sagður hafa hótað henni og beitt hana blekkingum, fengið hana til þess að senda sér kyn­ferðis­legar myndir og síðan hótað að birta þær opin­ber­lega. Hann er sagður hafa talið konunni trú um að hann vildi trú­lofast henni og nýtt sér að­stöðu­mun sinn til að brjóta gegn henni kyn­ferðis­lega.

Hann er síðan sakaður um að hafa brotið gegn tveimur þroska­hömluðum konum í bíl í Norð­linga­holti. Í á­kæru segir að konurnar hafi ekki skilið þýðingu verknaðarins vegna fötlunar sinnar en að manninum hafi verið vel kunnugt um hana vegna tengsla sinna við þær. Maðurinner sagður hafa í­trekað brotið gegn annarri þeirra á heimili sínu, blekkt hana, lofað henni peninga­greiðslum og hótað að drepa sig í þeim til­gangi að fá hana til að senda sér nektar­myndir.

Konurnar fjórar krefja manninn um sam­tals tíu milljónir króna í miska­bætur.