Karlmaður á sextugsaldri var á þriðjudag útskurðaður í nálgunarbann gagnvart konu og barnungri dóttur hennar vegna gruns um kynferðis- og ofbeldisbrot, hótanir, áreiti og ónæði. Hann hefur einnig verið ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart fjórum fötluðum konum.
Umrætt mál er tvíþætt; annars vegar er maðurinn grunaður um brot gegn mæðgunum og hins vegar gagnvart konunum fjórum. Landsréttur staðfesti þannig sex mánaða nálgunarbann síðastliðinn þriðjudag en lögregla telur manninn vera undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn mæðgunum en auk kynferðis- og ofbeldisbrota er hann sagður hafa ofsótt mæðgurnar.
Lögregla kölluð til átta sinnum
Fram kemur í nálgunarbannsúrskurðinum að konan hafi óskað eftir aðstoð lögreglu átta sinnum síðastliðna tvo til þrjá mánuði, hann ítrekað ónáðað hana með símtölum og smáskilaboðum og komið að heimili hennar, barið á glugga og unnið eignaspjöll á útidyrahurð hennar, svo fátt eitt sé nefnt.
Þá greinir RÚV frá því að maðurinn hafi verið ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart fjórum fötluðum konum. Honum er gefið að sök að hafa brotið fjórum sinnum á einni konunni frá því í lok árs 2014 til byrjun árs 2015, þar af tvívegis á gólfi salernis við Holtagarða. Einnig er hann ákærður fyrir að hafa haft af konunni tólf þúsund krónur sem hann lét hana taka út úr hraðbanka.
Hótaði að drepa sig ef hann fengi ekki nektarmyndir
Maðurinn er einnig ákærður fyrir brot gagnvart annarri konu, sem er þroskahömluð samkvæmt ákæru. Hann er sagður hafa hótað henni og beitt hana blekkingum, fengið hana til þess að senda sér kynferðislegar myndir og síðan hótað að birta þær opinberlega. Hann er sagður hafa talið konunni trú um að hann vildi trúlofast henni og nýtt sér aðstöðumun sinn til að brjóta gegn henni kynferðislega.
Hann er síðan sakaður um að hafa brotið gegn tveimur þroskahömluðum konum í bíl í Norðlingaholti. Í ákæru segir að konurnar hafi ekki skilið þýðingu verknaðarins vegna fötlunar sinnar en að manninum hafi verið vel kunnugt um hana vegna tengsla sinna við þær. Maðurinner sagður hafa ítrekað brotið gegn annarri þeirra á heimili sínu, blekkt hana, lofað henni peningagreiðslum og hótað að drepa sig í þeim tilgangi að fá hana til að senda sér nektarmyndir.
Konurnar fjórar krefja manninn um samtals tíu milljónir króna í miskabætur.