Landsréttur staðfesti í dag tvo úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli manns sem er grunaður um að brjóta á nálgunarbanni. Annar úrskurðurinn staðfesti nálgunarbann mannsins gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni og barni hennar, en hinn gaf lögreglunni heimild til að rannsaka síma hans.

Í öðrum úrskurðinum er farið yfir þau brot sem manninum er gefið að sök. Hann er til að mynda grunaður um að hafa í júní, og síðan aftur í ágúst á þessu ári, gert ítrekaðar tilraunir til að setja sig í samband við konuna. Aðallega með textaskilaboðum, en einnig með símhringingum. Þá er minnst á eitt atvik þar sem maðurinn á að hafa látið barn í hverfinu setja bréf sem hann skrifaði inn um bréfalúguna hjá konunni.

Sonurinn hafi flúið eftir hótanir

Þá er vísað til atvika sem áttu sér stað í janúar og febrúar á þessu ári, er varða meint brot mannsins á nálgunarbanni.

Í eitt skipti var lögregla kölluð til vegna alvarlegra hótana mannsins. Í úrskurði Héraðsdóms er því lýst að konan hafi verið í miklu uppnámi vegna málsins og hafi nún grátið og titrað á víxl. Hún á að hafa farið fram á skilnað og í kjölfarið hafi hann haft fram líflátshótanir við hana og jafnframt hefði hann vísað henni af heimilinu ásamt syni þeirra.

„Brotaþoli kvað kærða hafa sagt við sig „að hann ætlaði að stúta henni“ og í kjölfarið hafi sonur þeirra [...] ára flúið af heimilinu þar sem hann óttaðist kærða.“ segir í úrskurðinum.

Þá hafi dóttir konunnar einnig verið á vettvangi og staðfesti hún framburð móður sinnar. „Kvað hún kærða hafa hellt kaffi yfir brotaþola síðasta sumar. Brotaþoli kvaðst óttast kærða og hann hefði beitt hana ofbeldi sem hún hafi ekki kært. Kvaðst hún vera hrædd og óttast um líf sitt og velferð.“

Annað atvik tveimur dögum síðar

Tveimur dögum síðar var aftur hringt í lögreglu. Þá sagði konan að maðurinn hafi hent henni og syni hennar út af heimili þeirra, verið með hótanir, og neitað þeim um að fara aftur inn á heimilið. Maðurinn hafi haft uppi hugmyndir um framhjáhald hennar. Konan lýsti því að hún hafi óttast um líf sitt og velferð.