Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í dag, en meðal þeirra verkefna sem skráð voru í dagbók lögreglu var mál hundaeiganda í Breiðholti.

Sá sagðist hafa orðið fyrir árás manns sem sparkaði bæði í hann sjálfan sem og hundana sem voru með honum í för. Að sögn hundaeigandans hafði maðurinn í fyrstu gert athugasemdir við að einn af hundunum hefði migið í blómabeð við húsið hans. Athugasemdirnar hafi svo undið upp á sig og endað með þessum hætti.

Lögregla rannsakar málið sem líkamsárás ásamt broti á dýraverndunarlöggjöf.

Þá hafði lögregla afskipti af manni á stolinni bifreið. Sá var handtekinn í morgun. Við nánari eftirgrennslan fannst ætlað þýfi ásamt fjármunum sem lögregla telur að sé úr innbrotum sem framin voru í nótt.

Maðurinn var færður í fangageymslu og verður yfirheyrður við fyrsta tækifæri, þegar hann verður skýrsluhæfur.

Síðdegis fékk lögregla tilkynningu um mjög ógnandi aðila á Austurvelli sem var að veitast að fólki. Þegar lögreglu bar að garði var viðkomandi handtekinn og vistaður í fangageymslu „hvar honum gefst ráðrúm til að hugsa ráð sitt meðan honum rennur mesta áfengisvíman,“ segir í dagbók lögreglu.

Í kjölfarið verður hann kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Þá fékk lög­regla til­kynningu um eld í upp­þvotta­vél í austur­bæ Reykja­víkur, en þegar við­bragðs­aðilar mættu á staðinn hafði hús­ráðandi náð að slökkva eldinn með hands­lökkvi­tæki.