Karlmaður hefur verið ákærður fyrir brot gegn fyrrverandi eiginkonu sinni, en hann er meðal annars grunaður um að beita hana tvívegis ofbeldi þannig að líf, heilsa og velferð hennar var í hættu. Aðalmeðferð í málinu mun hefjast í Héraðsdómi Vesturlands síðar í þessum mánuði.

Málið varðar tvö meint brot mannsins, hið fyrra átti sér stað í húsnæði þeirra á Borgarnesi í desember 2020, þegar þau voru hjón, en hið síðara í húsnæði hennar á höfuðborgarsvæðinu í ágúst árið 2021, þegar þau voru skilin.

Í fyrra atvikinu er maðurinn grunaður um að hafa veist að eiginkonu sinni, með því að slá hana ítrekað í báða handleggi. Í ákærunni segir að með því hafi hann ógnað lífi og velferð konunnar. Þá er áverkum hennar lýst þannig að hún hafi hlotið bólgu og roða í húð sem náði frá olnboga hægri handar upp að öxl, og þá hafi hún fengið eymsli niður í framhandlegg.

Í síðara atvikinu er maðurinn grunaður um húsbrot með því að ráðast í heimildarleysi inn í íbúð fyrrverandi eiginkonu sinnar, tekið hana og farið með hana inn í svefnherbergi. Þar er hann grunaður um að hafa sparkað í fætur hennar, slegið hana ítrekað í hægri öxl og í andlit, hótað henni lífláti og tekið af henni síma svo hún gæti ekki hringt til lögreglu.

Með þessu á hann að hafa aftur ógnað lífi og velferð konunnar. Í ákærunni er ávekum hennar lýst þannig að hún hafi hlotið mar og verið bólgin víða um líkamann, auk þess hafi hún hlotið kúlu á höfði, áverka á munni og verið bólgin á innanverðri neðri vör.

Í málinu liggur fyrir einkaréttarkrafa af hálfu konunnar sem krefst þess að maðurinn greiði henni tvær milljónir króna auk vaxta, sem og málskostnað málsins.