Lög­regla rann­sakar nú mál karl­manns á fer­tugs­aldri sem grunaður er um að hafa reynt að myrða kærustu sína með því að berja hana í­trekað og taka hana háls­taki svo hún missti með­vitund. Þá á maðurinn einnig að hafa nauðgað kærustu sinni og rist hana á hægra læri með hníf. Á­rásin átti sér stað 6. og 7. októ­ber en maðurinn var hand­tekinn 8. októ­ber.

Héraðs­dómur Reykja­víkur úr­skurðaði manninn til að sæta á­fram­haldandi gæslu­varð­haldi allt til 8. nóvember að kröfu Lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu. Maðurinn kærði úr­skurðinn til Lands­réttar sem stað­festi úr­skurðinn í dag. Manninum er einnig gert að sæta ein­angrun á meðan á gæslu­varð­haldi stendur.

Ætlaði að fara frá manninum


Til­drög á­rásarinnar voru að kærasta mannsins tjáði honum að hún hygðist fara frá honum. Við það snög­greiddist maðurinn og barði hana í­trekað og nauðgaði henni. Konan hafi því næst leitað skjóls hjá ná­granna sínum en maðurinn hafi fundið hana þar og tekið hana háls­taki með þeim af­leiðingum að hún missti með­vitund.

Því næst dró hann hana yfir að heimili sínu þar sem hann risti grunnan skurð með hníf á hægra læri hennar. Maðurinn á síðan að hafa séð að sér og parið farið að sofa.

Hótaði að hengja hana


Morguninn eftir virðist reiðin enn ekki hafa runnið af manninum og að sögn konunnar hótaði hann henni líf­láti með hnífi og sagðist ætla að hengja hana. Réðst hann síðan á hana og barði hana lát­laust í höfuðið. Nauðgaði hann henni síðan aftur og fékk að sögn konunnar sáð­lát við það. Í fram­haldi af því veittist maðurinn aftur að konunni.

Maðurinn yfir­gaf því næst heimili sitt en hótaði kærustunni líf­láti skyldi hún yfir­gefa gáminn. Hún leitaði því næst til annars ná­granna og hringdi á lög­reglu sem mætti á vett­vang.

Maðurinn sagðist aldrei hafa lagt hendi á konu þrátt fyrir að eiga að baki sér átta ofbeldisdóma.
Fréttablaðið/Getty

Aldrei lagt hönd á konu

Við skýrslu­töku hjá lög­reglu neitaði maðurinn al­farið sök og sagðist aldrei hafa lagt hendur á konur. Maðurinn hefur þó átta sinnum verið sak­felldur fyrir of­beldis­brot en hann lauk af­plánun vegna nýjasta dómsins síðast­liðinn júní. Þá sýndu niður­stöður fræði­legs mats Fangelsis­mála­stofnun að miklar líkur hafi verið taldar á því að maðurinn myndi brjóta af sér aftur á innan við ári, eða um 61 prósent líkur.

Sam­kvæmt gögnum frá neyðar­mót­töku var konan ótta­slegin við skoðunina, var hún bæði hrædd um líf sitt og skalf á meðan á skoðuninni stóð. Við skoðun fundust sár og punkt­blæðingar sem gæti hafa komið við kyrkingu og eftir að konan var kýld í hökuna neðan frá. Þá fundust mis­stórir mar­blettir á líkama konunnar og hugsan­legt bit­sár á hægri hand­legg auk skurðar eftir hníf.

Almannahagsmunir í húfi

Ná­grannar konunnar, sem eru lykil­vitni í málinu, eiga enn eftir að gefa lög­reglu skýrslu og er talið að maðurinn gæti haft á­hrif á fram­burð þeirra gengi hann laus. Lög­reglu­stjóri taldi al­var­leiki brotanna sem eru til rann­sóknar einnig sýna fram á að skil­yrða þyrfti manninn til að sæta á­fram­haldandi gæslu­varð­haldi til að gæta al­manna­hags­munum. Maðurinn mun sem fyrr segir sæta gæslu­varð­haldi til 8. nóvember.